Þrátt fyrir að segjast berjast fyrir borgaralegum réttindum er eignarrétturinn þyrnir í augum Pírata. Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann gerir stefnumál Pírata að umtalsefni sínu.
Segist hann eiga ágæta samleið með þeim þegar komi að ákveðnum borgararéttindum en annað sé með skilgreiningu þeirra á lýðræði. Hann telji að þeir sem mest tali um lýðræði skilji það síst. „Er það ekki bundið við Pírata frekar en aðra hópa sem telja sig lýðræðislegri en gengur og gerist. Svo er það ekkert sérstaklega lýðræðislegt að taka nánast aldrei afstöðu til mikilvægra mála á þinginu.“ Vísar hann þar til fréttar mbl.is á dögunum um hjásetu og fjarveru þingmanna við atkvæðagreiðslur á yfirstandandi þingi samkvæmt tölfræði Alþingis en þingmenn Pírata hafa oftast setið hjá við þær aðstæður.
„Ég hef aftur á móti átt ágætis samleið með Pírötum þegar kemur að ákveðnum borgararéttindum, eins og friðhelgi einkalífs. Vandamálið hins vegar með Pírata er að það gætir mikil tvískinnungs þegar kemur að borgaralegum réttindum. Eignarréttur og eignarréttindi, sem eru sennilega mikilvægustu réttindi manna auk þess að vera afar mikilvæg fyrir velferð og framþróun samfélagsins, eru beinlínis þyrnir í augum Pírata. Ef ég man rétt hefur einn þingmaður Pírata látið hafa eftir sér að einkaeignarrétturinn sé mein í íslensku samfélagi,“ segir Brynjar ennfremur.
Þá hafi Píratar barist hatrammlega gegn hvers konar verndun eignarréttinda þegar komi að hugverkum. „Þessi afstaða til eignarréttinda er ástæða þess að ég tel Pírata í grunninn venjulegan vinstriflokk, sem hafa í sögulegu samhengi sjaldnast verið áhugasamir um borgaraleg réttindi manna nema þegar kemur að borgaralegri óhlýðni.“