Mikil norðurljósavirkni hefur verið yfir Íslandi þennan veturinn þrátt fyrir að skýin hafi hulið útsýnið að mestu. Í samtali við mbl.is segir Þórður Arason, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, að virkni ljósanna gæti farið minnkandi næstu ár, en hún fylgir virkni sólarinnar.
„Það er ellefu ára sveifla á sólarvirkni, eða fjölda sólbletta í sólinni, og náði hún hámarki í fyrra að ég tel, á meðan lágmarkið var árið 2008. Hámark norðurljósanna er yfirleitt einum til tveimur árum eftir hámark sólblettana. Þetta helst því ekki alveg í hendur og við erum kannski í vissu hámarki norðurljósa núna,“ segir Þórður.
Hann tekur fram að hámark sólarvirkninnar, sem átti sér stað í fyrra, sé það minnsta í hundrað ár eins og fram kemur í umfjöllun mbl.is um málið. Sérfræðingar hafa átt í erfiðleikum með að útskýra hvað veldur. „Þannig að við vitum svo sem ekkert hvað bíður okkar. Til eru dæmi um að sólblettir hafi ekki sést í marga áratugi og við gætum verið á leið í slíkt tímabil.“
Aðspurður hvort í hönd fari verri tímar fyrir unnendur norðurljósanna segir Þórður að svo geti vissulega verið. „Ég hugsa að umfang norðurljósa muni kannski minnka núna. Í vetur hefur til að mynda verið mikið af erlendum ferðamönnum hér á landi að skoða norðurljósin en það hefur ekki viðrað vel til þess. Nú fer virknin að minnka svo að jafnvel þótt veðrið lagist að einhverju ráði þá má búast við færri norðurljósum á næstu árum.“
Þó norðurljósin séu ekki strangt til tekið árstíðabundin, enda spyrji sólin ekki að möndulhalla jarðar, segir Þórður að í fræðunum sé þekkt ákveðin árstíðasveifla. „Auðvitað eru norðurljós líka á sumrin, það er bara yfirleitt of bjart til að sjá þau. Um jafndægrin á haustin og vorin nær þessi árstíðasveifla hins vegar hámarki og þá er jafnan mikil virkni norðurljósa.“
Á vef Veðurstofunnar má sjá norðurljósaspá fyrir Ísland næstu daga, en auk þess er Jarðfræðistofnun Alaska með sérstaka spá fyrir Norður-Evrópu á vefsíðu sinni. Spárnar um norðurljósavirkni eru gerðar með tveggja daga fyrirvara að sögn Þórðar. „Það sem gerist á sólinni er vanalega um tvo daga að berast hingað til jarðar og við tökum mið af því. Þá eru einnig spár til skemmri tíma, sem ná aðeins nokkra klukkutíma fram í tímann. Þær byggjast á gögnum gervitungls sem er staðsett á milli jarðar og sólar, og mælir það eindastraum frá sólinni sem skellur svo síðar á segulhveli jarðar.“
Spárnar eru þó ekki aðeins gerðar til gagns og gamans fyrir norðurljósaunnendur heldur eru þær gríðarlega mikilvægar og gætu afstýrt tjóni sem næmi hundruðum milljarða króna, ef til öflugs sólgoss kæmi sem beindist að jörðu. Slíkur atburður átti sér stað árið 1859 og í kjölfarið sáust norðurljós á jafn suðlægum stöðum og Hawaii, Kúbu og Jamaíka, auk þess sem lesbjart var um nætur sums staðar. Þá eyðilögðust símskeytakerfi víða um heim.
„Annar atburður þessu álíkur átti sér stað árið 1989 og olli hann víðtæku rafmagnsleysi í Kanada. Ég held því að mikið af þessum mælingum séu gerðar svo að hægt sé að bregðast við ef þetta myndi endurtaka sig. Þá hefðum við að minnsta kosti einhvern tíma til að gera ráðstafanir.“