Tillögur Framsóknar til flokksþings

Frá þingflokksfundi Framsóknarflokksins.
Frá þingflokksfundi Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Flokksþing Framsóknarflokksins verður sett á morgun í Gullhömrum í Grafarholti og stendur fram á sunnudag. Birt hafa verið drög að ályktunum sem lagðar verða fyrir þingið til umræðu. Í drögunum má meðal annars finna tillögur um:

Að veita lögreglu forvirkar rannsóknarheimildir, sambærilegar þeim sem lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur.

Að brýnt sé að lækka tryggingargjald, enda átti hækkun þess að vera tímabundin meðan atvinnuleysi væri hátt.

Að tækifæri til olíuvinnslu á Drekasvæðinu verði könnuð til hlítar og hagnýtt, gefi rannsóknir tilefni til þess. Komi til vinnslu skuli gæta ýtrustu umhverfisvarúðar.

Opinbera stefnumörkun um lagningu sæstrengs til rafmagnsflutnings á milli Íslands og Bretlandseyja. Hins vegar segir í drögunum að varhugavert sé að ráðast í framkvæmdir sem stórhækka raforkuverð innanlands. Segir í tillögunum að áhættu landsmanna beri að lágmarka.

Í tillögunum er lagt til að Framsóknarflokkurinn hafni því að áfengi verði selt í matvöruverslunum.

Að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni „sem hornsteinn fyrir samgöngur landsmanna, vegna almennings- og öryggishagsmuna.“

Að vegna dræmrar kosningaþátttöku á sveitarstjórnarstigi árið 2014 er lagt til að skoðaðir verði kostir rafrænna kosninga til sveitarstjórna. 

Að útvarpsgjaldið renni óskipt til RÚV.

Að Framsóknarflokkurinn telji brýnt að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús. 

Á laugardaginn verður kosið í embætti flokksins klukkan 13. Á sunnudaginn verða mál þingins afgreidd auk tillögur að lagabreytingum áður en þingi verður slitið klukkan 14.

Drögin í heild sinni má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert