Fagna auknum skyldum leigusala

Eldvarnir eru mun lakari hjá leigjendum en þeim sem búa …
Eldvarnir eru mun lakari hjá leigjendum en þeim sem búa í eigin húsnæði. mbl.is/Árni Sæberg

Eldvarnabandalagið fagnar tillögu stjórnvalda um að í húsaleigulögum verði kveðið á um skyldur leigusala til að tryggja eldvarnir í leiguhúsnæði.

Eldvarnabandalagið telur að ný ákvæði um eldvarnir yrðu mikilvægt skref í þá átt að auka eldvarnir í leiguhúsnæði en rannsóknir sýna að eldvarnir eru miklu lakari hjá leigjendum en þeim sem búa í eigin húsnæði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eldvarnarbandalaginu. 

„Í 9. gr. frumvarps félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á húsaleigulögum er lagt til að við 14. gr. laganna bætist ákvæði um eldvarnir. Í athugasemdum við greinina kemur skýrt fram að gert er ráð fyrir að við afhendingu leiguhúsnæðis verði þar að lágmarki reykskynjari og slökkvitæki. Í frumvarpinu segir einnig að leigusala beri að viðhalda eldvörnum húsnæðisins (13. gr.).

Rannsóknir sem Capacent hefur gert fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sýna að eldvarnir í leiguhúsnæði eru miklu lakari en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði. Það á við allt í senn reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Í ljósi þessara niðurstaðna hefur Eldvarnabandalagið ítrekað bent stjórnvöldum á mikilvægi þess að í húsaleigulögum verði kveðið á um skyldur leigusala til að tryggja eldvarnir.

Ennfremur hefur Eldvarnabandalagið bent stjórnvöldum á að leita þurfi leiða til að auka eldvarnir í eldra leiguhúsnæði sem ekki er byggt samkvæmt nútímakröfum um eldvarnir og verði kröfur um úrbætur byggðar á meðalhófi og raunsæi með tilliti til kostnaðar,“ segir í tilkynningunni. 

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf. Eitt helsta áhersluverkefni Eldvarnabandalagsins á næstu vikum og mánuðum verður að þrýsta á um úrbætur og grípa til aðgerða til að auka eldvarnir í leiguhúsnæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert