Innleiði reglur ESB hraðar

Þinghús Evrópusambandsins í Strasbourg.
Þinghús Evrópusambandsins í Strasbourg. Wikipedia/JPlogan

EES-ríkin verða að innleiða lög og reglur frá Evrópusambandinu hraðar og standa við skuldbindingar sínar til að kostir sameiginlega markaðarins minnki ekki. Þetta segir Evrópuþingmaðurinn Andreas Schwab, höfundur skýrslu nefndar þingsins um EES-samninginn, sem staddur er hér á landi.

Schwab hélt erindi á opnum fundi um ástand og áskoranir Evrópska efnahagssvæðisins sem fór fram á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í samstarfi við Evrópustofu í morgun. Í samtali við mbl.is segir Schwab að Ísland sé mikilvægur norræn samstarfsaðili Evrópusambandsins og því taki fulltrúar þess það sem gerist á Ísland og það sem íslenskir stjórnmálamenn hafi fram að færa alvarlega.

ESB og Íslandi verði á vissan hátt að vinna saman í hnattvæddum heimi. Báðir aðilar ættu að vera meðvitaðir um það og ekki taka sem gefna þá velferð og efnahagsábata sem þeir njóta af samstarfinu.

„EES og ESB byggjast á þeim grunni að við trúum því að sameiginlegar reglur geri okkur sterkari saman. Þess vegna þurfa báðir aðilar að halda sig við skuldbindingar sem þeir hafa tekið á sig. Á þessu stigi eru viss vandamál með innleiðingu reglnanna innan EES-ríkjanna og það er nokkuð sem verður metið á gagnrýninn hátt í skýrslu minni,“ segir Schwab.

Þetta segir hann þó ekki vera vandamál sem sé eingöngu bundið við EES-ríkin heldur hafi aðildarlönd Evrópusambandsins sjálfs verið of lengi að leiða reglur þess í landslög.

„Þetta er almennt vandamál en við verðum að leysa það því ef við gerum það ekki verða kostir sameiginlega markaðarins mun minni. Þá gætu borgararnir spurt sig til hvers var af stað farið. Það er raunveruleg nauðsyn til að flýta innleiðingu innan ESB en einnig inn EES-ríkjanna,“ segir Evrópuþingmaðurinn.

Breytingar á EES-samningnum ekki á dagskránni

Spurður hvort Evrópusambandið verði tilbúið til að viðhalda EES-samningnum út í hið óendanlega eða hvort það muni sækjast eftir breytingum á honum segir Schwab að það muni ekki reyna að grafa undan honum. Hann gæti þó aftur komið til umræðu ef mönnum finnist samningurinn ekki virka lengur sem skyldi eða aðilar standi ekki við heit sín. Þær séu hins vegar ekki á dagskránni eins og stendur.

„EES-samningurinn er mjög sérstakur samningur sem Evrópusambandið myndi líklega aldrei gera aftur. Hann var hins vegar gerður og við höldum okkur við það sem við höfum lofað. Við eigum von á því að aðildarríkin að honum, þar á meðal Ísland, haldi áfram að styðja meginlínur hans. Ein þeirra er að innleiðingin verði að ganga skjótt fyrir sig,“ segir Schwab.

Andreas Schwab situr á Evrópuþinginu fyrir hóp kristilegra demókrata.
Andreas Schwab situr á Evrópuþinginu fyrir hóp kristilegra demókrata.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert