Leiðréttingin einstök á heimsvísu

Frá blaðamannafundi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson …
Frá blaðamannafundi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra boðuðu til til að kynna aðgerðir stjórnvalda til skuldaleiðréttingar. mbl.is/Ómar

„Leiðréttingin var í raun einstök á heimsvísu,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í yfirlitsræðu sinni við setningarathöfn 33. flokksþings framsóknarmanna í dag.

Sagði hann að um hafi verið að ræða stærsta kosningaloforð allra tíma og mestu efndir allra tíma. „Pólitískir keppinautar höfðu sagt að hún væri óframkvæmanleg, en á aðeins 18 mánuðum var leiðréttingunni hrint í framkvæmd og gekk betur en jafnvel við höfðum þorað að vona.“

Sigmundur Davíð fór yfir víðan völl í ræðu sinni og var tíðrætt um þá vegferð sem ríkisstjórnin hefur farið síðustu tvö árin. Sagði hann að með leiðréttingunni hafi verið komið til móts við fólk sem hafði verið litið framhjá í fyrri aðgerðum stjórnvalda, banka eða dómstóla.

„Það var komið til móts við þann stóra hóp sem hafði mátt þola skerðingu á eignum sínum án þess að fá hlutdeild í niðurfærslu lána. Það liggur ljóst fyrir að heimilin hefðu ekki notið þeirrar leiðréttingar nema vegna þrotlausrar baráttu framsóknarmanna,“ sagði hann.

Eins og komið hefur fram nýtist leiðréttingin fyrst og fremst fólki með lægri- og millitekjur og þeim sem hafa lágt eiginfjárhlutfall. Sigmundur sagði áhrifin þegar byrjuð að koma fram en að þau munu skila sér enn frekar á næstu misserum í betri fjárahagsstöðu heimilanna, efnahagsbata fyrir samfélagið og umtalsverðri aukningu ráðstöfunartekna. Sú aukning ráðstöfunartekna muni hafa áhrif áratugi fram í tímann.

„Þetta var stór aðgerð en hún var efnahagslega skynsamleg og hún var réttlætismál,“ sagði hann. 

33. flokksþing framsóknarmanna var sett í dag að Gullhömrum í Grafarholti. Yfirskrift flokksþingsins er Framsókn í forystu, en í inngangi draga að flokksþingsályktunum segir m.a.: „Fagnað er sérstaklega þeim mikla og mikilvæga árangri sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur náð við uppbyggingu efnahagslífs og endurreisn samfélagsins.“

„Sérstaklega er fagnað að Leiðréttingin skuli hafa verið framkvæmd á svo skömmum tíma sem raun er, og að aðgerðin nýtist þeim skuldurum best sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa barnabætur verið hækkaðar og 40 milljörðum króna verið skilað til heimilanna í formi lægri skatta á almenning. Bætt staða heimilanna er mikilvæg forsenda frekari uppbyggingar í efnahagsmálum þjóðarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert