Búið er að opna veginn um Þrengsli en Hellisheiði er enn þá lokuð, samkvæmt upplýsingum á Vegagerðinni. Þó er enn óveður á þessum stöðum, en búast má við að það dragi úr vindi með kvöldinu.
Á Suðurlandi er annars víða hálka eða hálkublettir. Lokað er um Lyngdalsheiði og Kjósarskarð er ófært.
Á Vesturlandi eru víðast hálkublettir á láglendi en hálka eða snjóþekja á fjallvegum. Þó er ófært á Fróðárheiði og eins Bröttubrekku en þar er blindhríð. Snjóþekja er á Holtavörðuheiði.
Slæmt veður er á Vestfjörðum og aðeins opið milli helstu þéttbýlisstaða. Lokað er um Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðs. Stórhríð er á Klettshálsi og Hjallahálsi, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Þarna er ófært og mokstur í biðstöðu vegna veðurs. Þungfært er í Djúpinu og Vatnsfjarðarhálsinn ófær. Vonskuveður er einnig á Ströndum og vegur ýmist þungfær eða ófær.
Ófært og stórhríð er á Vatnskarði og Þverárfjalli. og versnandi veður á Norðurlandi annars er víða snjóþekja og éljagangur á Norðvesturlandi.
Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði og sjóþekja og él á Ólafsfjarðarvegi. Ófært og Stórhríð er á Víkurskarði en þæfingsfærð og skafrenningur í Dalsmynni.
Á Austurlandi er víða nokkur hálka eða snjóþekja og sumstaðar éljagangur og skafrenningur. Autt með ströndinni suður um.