Í hádegismat þegar eldurinn kom upp

Þykkur reykur myndaðist í togaranum.
Þykkur reykur myndaðist í togaranum. Ljósmynd/Gunnar Hall

„Við vorum um borð þegar að það kviknaði í en við vorum heppnir að vera staddir í hádegismat þegar að eldurinn kemur upp,“ segir Gunnar Hall, en hann ásamt þremur öðrum Íslendingum var við störf á rússneskum frystitogara við höfnina í Las Palmas í Kanaríeyjum þegar að það kviknaði í vélarrúmi hans fyrr í dag.

Gunnar var að störfum í togaranum í dag ásamt þeim Snæbirni Sveinssyni, Þorsteini Kristvinssyni og Jóni Halldóri Jónssyni. Gunnar og Snæbjörn starfa hjá Naust Marine en Þorsteinn og Jón Halldór hjá Mariconnect. Í dag voru þeir að störfum í togaranum, sem heitir Oleg Naydenov, við það að setja upp tæknibúnað tengdum rafalastjórnun frá Naust Marine.

„Ég veit ekki hvað gerðist nákvæmlega en ég veit að það kviknaði í vélarrúminu. Eldurinn breiddist fljótt út en mér skilst að allir hafi komist frá borði,“ segir Gunnar. „Þegar togarinn var búinn að brenna í einn og hálfan tíma ákváðum við að fara bara upp í bæ. Síðast þegar við heyrðum fregnir logaði enn í bátnum og slökkvilið enn að störfum.“

Aðspurður hvort að það hafi ekki verið slæm tilfinning að sjá skip sem hann var um borð rétt áður brenna svarar Gunnar því játandi. „Það var sko ekki gaman, alveg fjarri því.“ Hann segir að þeir félagar viti nú ekki hvað taki við. „Við vitum ekkert hver staðan er með þennan togara. En ég held að  það verði ekkert unnið í honum í bili,“ segir Gunnar og bætir við að Oleg Naydenov sé 120 metra langt skip með yfir hundrað manna áhöfn.

Aðspurður hvort að skipið sé ónýtt telur Gunnar það líklegt. „Ég er nú ekki sérfræðingur. En ég tel allar líkur á því.“ 

Ljósmynd/Gunnar Hall
Gunnar er hægra megin á myndinni.
Gunnar er hægra megin á myndinni.
Reykurinn sást vel úr fjarlægð.
Reykurinn sást vel úr fjarlægð. Ljósmynd/Gunnar Hall
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert