Tugir þúsunda fugla sóttu í æti á sunnanverðum Breiðafirði með síldargöngum sem hófust veturinn 2005-6.
Fjöldi fugla náði hámarki í kringum síldardauðann í Kolgrafafirði veturinn 2012-13, nokkrum árum eftir að síldin náði hámarki á svæðinu. En hvaðan komu allir þessir fuglar og hvar fengu þeir upplýsingar um að þarna væri nóg að éta?
Í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, að margir þættir geti haft áhrif í þessu sambandi, en ef hann leyfi sér að taka skikkju vísindamannsins af öxlunum, segist hann ekki efast um að að hluta til hafi fuglarnir greint hverjir öðrum frá veislunni.