Tvær bílveltur urðu í Ölfusi og við Ingólfsfjall fyrr í dag, en slæmt veður er á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá blaðamanni mbl.is sem er á vettvangi voru 6-7 bílar skildir eftir fastir í Kömbunum, en ekki náðist í lögreglu vegna málsins.
Vegagerðin hefur lokað Hellisheiði en þar er nú mikið hvassviðri, snjóþekja og skafrenningur. Þrengsli verða opin áfram en þar er einnig snjóþekja, skafrenningur og hvassviðri. Á Suðurlandi er annars víða hálka eða hálkublettir. Lokað er um Lyngdalsheiði og Kjósarskarð er ófært.
Lögreglan á Suðurlandi hefur brýnt fyrir vegfarendum að fylgjast með upplýsingum um færð og veður.
Á Vesturlandi eru víðast hálkublettir á láglendi en hálka eða snjóþekja á fjallvegum. Þó er ófært á Fróðárheiði og eins Bröttubrekku en þar er blindhríð. Stórhríð er einnig á Holtavörðuheiði og þæfingsfærð.
Slæmt veður er á Vestfjörðum og aðeins opið milli helstu þéttbýlisstaða. Stórhríð er á Klettshálsi og Hjallahálsi, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Þarna er ófært og mokstur í biðstöðu vegna veðurs. Þungfært er í Djúpinu og Vatnsfjarðarhálsinn ófær. Vonskuveður er einnig á Ströndum og vegur ýmist þungfær eða ófær.
Ófært og stórhríð er á Vatnskarði og versnandi veður á Norðurlandi annars er víða snjóþekja og éljagangur á Norðvesturlandi.
Hálkublettir eru á Öxnadalsheiði og sjóþekja og él á Ólafsfjarðarvegi.
Á Austurlandi er víða nokkur hálka eða snjóþekja og sumstaðar éljagangur og skafrenningur. Autt með ströndinni suður um.