Samningaviðræður SGS og SA stopp

Frá fundi SGS og SA í Karphúsinu í vikunni.
Frá fundi SGS og SA í Karphúsinu í vikunni. mbl.is/Þórður Arnar

Ekkert hefur þokast í samningaviðræðum Starfs­greina­sam­bands­ins við Samtök atvinnulífsins og næsti samningafundur hefur ekki verið boðaður fyrr en föstudaginn næstkomandi, þann 17. apríl. Þetta segir Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, í samtali við mbl.is.

Reynt hef­ur verið að ná end­ur­nýj­un kjara­samn­inga í nokkra mánuði án ár­ang­urs, en kröfur SGS eru þær að lægstu laun verði kom­in upp í 300 þúsund krón­ur inn­an þriggja ára svo launa­fólk hafi mögu­leika til að lifa af dag­vinnu­laun­um. 

Árangurslausir fundir og viðræður stopp

Síðasti samningafundur fór fram í gær, en að sögn Björns var hann árangurslaus. Segir hann SA ekki vilja ræða kröfur SGS svo viðræðurnar séu stopp. Þá segir hann ekkert hafa verið lagt fram ennþá. „Auðvitað spjalla menn um ýmsa hluti en það hefur ekkert verið lagt fram sem skiptir máli. En við höldum bara okkar kröfum þrátt fyrir að þeir telji þær óraunhæfar.“

SA hafa sagt SGS krefjast tug­pró­senta launa­hækk­ana sem muni leiða til mik­ill­ar verðbólgu á skömm­um tíma og stökk­breyta verðtryggðum skuld­um heim­ila og fyr­ir­tækja, hækka vexti og fella gengi krón­unn­ar. Björn hafn­ar þessu al­farið, og seg­ir ekki liðið að fólk sem vinnur fyrir lægstu launum á Íslandi eigi að bera ábyrgð á stöðugleika og lágri verðbólgu.

Þá segir hann Sam­tök at­vinnu­lífs­ins etja SGS út í verk­fallsaðgerðir, svo sam­bandið neyðist til að verja hend­ur sín­ar. „Það er algjört neyðarúrræði að fara í verkfall en þegar menn fá engin svör eða hugmyndir gagnvart sínum tillögum þá neyðumst við til að gera það,“ segir Björn og bætir við að hann sé ekki mjög bjartsýnn um það að deilan leysist á næstu dögum.

Allsherjarverkfall í maí ef samningar hafa ekki náðst

At­kvæðagreiðsla meðal aðild­ar­fé­laga SGS um boðun verk­falls hefst næsta mánu­dag, 13. apríl klukkan 8 og lýkur á miðnætti 20. apríl. Fyrri at­kvæðagreiðsla fé­lag­anna var dæmd ólög­mæt í fé­lags­dómi og seg­ir á vef SGS að því sé hún end­ur­tek­in núna og greint á milli aðild­ar­fé­laga inn­an SGS og þeirra samn­inga sem kosið er um. „Aldrei hef­ur verið dæmt í svona máli áður en ljóst er að SA ætl­ar að beita laga­klækj­um frek­ar en að setj­ast að samn­inga­borðinu,“ seg­ir á vefn­um.

Björn segir félögin stefna að því að hefja verkföll um næstu mánaðarmót, en þá muni öll aðildarfélög innan SGS leggja niður störf. Verkfallsaðgerðir munu þá standa yfir 30. apríl, 6. og 7. maí og 19. og 20. maí. Þann 26. maí mun svo hefjast allsherjarverkfall ef samningar hafa ekki náðst.

„Við ætlum ekki að láta hluta félaganna fara í verkfall eins og til stóð í upphafi heldur alla. Það verða bara lokaðar dyr þessa daga,“ útskýrir Björn og segist sjá fram á að farið verði út í þessar aðgerðir. „Eins og staðan er í dag bendir ekkert til annars.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert