Þeyttist tugi metra eftir árekstur

Hermann Ívarsson, lögregluvarðstjóri á Norðurlandi vestra, lenti í ótrúlegu atviki …
Hermann Ívarsson, lögregluvarðstjóri á Norðurlandi vestra, lenti í ótrúlegu atviki í dag þegar hann þeyttist tugi metra eftir að bíll skall á honum. Mynd/Hermann Ívarsson

Hermann Ívarsson, lögregluvarðstjóri á Norðurlandi vestra, horfði upp á flutningabíl ekið á fólksbifreið sem lenti svo á honum með þeim afleiðingum að hann þeyttist tugi metra og endaði utan vegar upp á Holtavörðuheiði í dag. Hermann segist í samtali við mbl.is hafa hugsað með sjálfum sér að þetta væri hans síðasta, enda hafi flutningabíllinn komið æðandi á bílakösina sem hafði skapast eftir árekstur á veginum.

Flutningabíllinn kemur aðvífandi á mikilli ferð

Um miðjan dag var tilkynnt um árekstur uppi á Holtavörðuheiði, norðarlega við Miklagil. Hermann, sem starfar á Blönduósi, hélt á vettvang og þegar komið var á staðinn var um 4-5 bíla árekstur að ræða. Hann segir að veðurofsinn sé mestur á litlum bletti við Miklagil, en þar safnast saman snjór á brúnni og vindurinn úr gilinu myndar kóf þannig að ekkert sést úr augum út. Allsstaðar í kring hafi aftur á móti verið bjart á að líta.

„Ég er þarna að ræða við fólk sem lenti í árekstrinum og það er bíll þversum á veginum þar sem við vorum að aðstoða farþegann,“ segir Hermann, en færa átti bílinn til hliðar út í kant á veginum. „Þegar ég er með farþeganum kemur flutningabíll aðvífandi á mikilli ferð og ég sé hann skyndilega og öskra á farþegann í bílnum að forða sér.“

„Þeyttist einhverja tugi metra“

Hermann var sjálfur við hægri framenda fólksbílsins, en það næsta sem hann veit er að flutningabíllinn skellur á bílnum. Farþeginn náði að forða sér, en bíllinn lendir á Hermanni. „Hann kastast bílnum á mig af þvílíku afli þannig að ég þeyttist einhverja tugi metra og endaði fyrir utan veg,“ segir Hermann.

Hann segist fljótlega hafa rankað við sér fyrir utan veg og þá hafi honum orðið ljóst að farþeginn hafi aftur á móti verið undir flutningabílnum. „Hann var alveg undir bílnum við vinstra framhjólið. Það var aðeins höfuðið sem stóð undan hásingunni,“ segir Hermann.

Ótrúlegt lán að ekki fór verr

Hann kallaði strax á sjúkrabíl og ætlaði svo að fara að huga að farþeganum. Eiginkona farþegans var aftur á móti þá strax komin að flutningabílnum og öllum til undrunar var maðurinn sjálfur að reyna að komast undan bílnum. „Hann hefur fengið ansi mikið högg en var furðu brattur,“ segir Hermann, en nokkuð greiðlega gekk að koma manninum undan bílnum og koma honum í næsta lögreglubíl til að athuga með meiðsli.

„Ég hreinlega veit ekki hvaða lán það var að þetta fór ekki verr,“ segir Hermann, en þegar hann sá flutningabílinn koma segist hann hafa hugsað með sér að þetta væri hans síðasta.

Slapp sjálfur furðu vel

Hermann sjálfur virðist hafa sloppið nokkuð vel, en hann viðurkennir þó að hafa fundið fyrir byltunni. „Ég er helvíti aumur í skrokknum, því er ekki að neita,“ segir hann, en eftir að hafa hitt lækni var hann úrskurðaður óbrotinn þrátt fyrir að vera lemstraður hér og þar.

Krítísk skilyrði á brúnni

Atvikið gerðist sem áður segir á brúnni við Miklagil og segir Hermann að á þessum stað séu krítísk skilyrði þar sem mikill snjór safnist saman og þegar blási myndist mikið kóf. Þetta geri staðinn hættulegan í veðri eins og í dag, þótt allt í kring sé ágætt ferðaveður.

Maðurinn sem lenti undir flutningabílnum var fyrst talinn nokkuð alvarlega slasaður, en eftir viðkomu á spítala í Reykjavík kom í ljós að meiðsl hans voru ekki lífshættuleg. Í dag urðu nokkur önnur slys á heiðinni, en slys á fólki voru minniháttar.

Frá Holtavörðuheiði fyrr í dag.
Frá Holtavörðuheiði fyrr í dag.
4-5 bílar klesstust á stuttum kafla við Miklagil. Fleiri bílar …
4-5 bílar klesstust á stuttum kafla við Miklagil. Fleiri bílar lentu einnig í árekstri annarsstaðar á Holtavörðuheiði í dag.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert