Verði leiðandi afl á norðurslóðum

Forysta Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Eygló Harðardóttir og Sigurður Ingi …
Forysta Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Eygló Harðardóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Árni Sæberg

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að Ísland verði leiðandi afl á norðurslóðum í Norðurlandaráði og jafnframt virkir þátttakendur í vestnorrænu starfi og rannsóknum. Þetta kemur fram í ályktun 33. flokksþings framsóknarmanna um utanríkismál, en þinginu lýkur í dag.

Í ályktuninni segir einnig að Ísland eigi að vera virkt í samtali þjóða um framtíð heimsins. Ísland ætti að stefna að því innan þróunarsamvinnu að miðla sem mest þeirri af þeirri einstöku þekkingu sem byggð hafi verið upp innanlands á vettvangi Háskóla sameinuðu þjóðanna, í sjálfbærum sjávarútvegi, jarðhita, jafnrétti og landgræðslu. Þá skuli unnið áfram að uppbyggingu í tvíhliða þróunarsamvinnu með fátækustu ríkjum heims.

Leggur flokkurinn áherslu á að Íslandi skuli áfram beita sér í bættu aðgengi fátækra ríkja að alþjóðaviðskiptum og afnámi hindrana. Unnið verði að því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu endurspegli markmið Sameinuðu þjóðanna.

„Valdefling kvenna er mikilvægt efnahagslegt baráttumál fyrir þjóðir heims. Sýnt hefur verið fram á aukinn efnahagslegan ávinning fyrir ríki heims með virkri þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins. Mikilvægt er að Ísland beiti sér áfram fyrir þróunarsamvinnuverkefnum sem stuðla að jafnrétti kynjanna,“ segir einnig í ályktuninni.

Leiti áfram eftir samstarfi við þjóðir

Þá kemur fram að Íslendingar skuli áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábati allra aðila. Með slíkum samskiptum geti íslensk stjórnvöld best tryggt langtímahagsmuni Íslands.

Hvað varðar EES-samninginn segir í ályktuninni að hann veiti Íslandi aðgang að sameiginlegum markaði Evrópu og sé grunnur að samstarfi Íslands og Evrópusambandsins.

Loks er áréttað að flokkurinn telji hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins og hafnar því aðild að sambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert