Gistináttaskatturinn hefur skilað 679,9 milljónum til ríkissjóðs frá því að skatturinn var tekinn upp í ársbyrjun 2012. Það ár var hann tæplega 200 milljónir en hefur síðan hækkað upp í rúmlega 260 milljónir. Rúmlega helmingur skattsins er innheimtur í Reykjavík. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers, þingmanns Samfylkingarinnar.
Heildarupphæð gistináttaskattsins árið 2012, sem var fyrsta árið sem hann var innheimtur, nam 195,5 milljónum. Hlutfall Reykjavíkur það árið var 53%, eða 103,6 milljónir. Ári seinna var heildarupphæðin 222 milljónir, en í Reykjavík hún 122,8 milljónir eða rúmlega 55,3%.
Í fyrra lækkaði hlutfall Reykjavíkur nokkuð og fór niður í 50,3%, en af 262,6 milljónum sem skatturinn var það árið voru 132,1 vegna gistirýma í Reykjavík. Þegar gistirýmum í suðvesturkjördæmi er bætt við verður heildarhlutfallið yfir allt tímabilið 57,2%. Að meðaltali er því um að ræða 226,6 milljónir á ári síðustu þrjú ár.
Þegar önnur kjördæmi eru skoðuð sést að 19,6% gjaldsins kemur frá suðurkjördæmi, 8,7% frá norðvesturkjördæmi og 14,5% frá norðausturkjördæmi.