Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagðist ekki skilja hví hann væri í samráðsnefnd um losun gjaldeyrishafta ef engar upplýsingar kæmu þar fram og tilkynnt væri um mikilvæg mál á öðrum vettvangi. Sagði hann að markvisst væri verið að hafa stjórnarandstöðuþingmenn að fíflum.
„Ég veit ekki í hvaða leikriti ég er staddur,“ sagði Guðmundur á þingfundi í dag. Sagðist hann vera í samráðsnefnd um losun gjaldeyrishafta og þar væri hann bundinn trúnaði. Vitnaði hann svo í ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson forsætisráðherra um helgina þar sem hann tilkynnti um nýjan stöðugleikaskatt og að hefja ætti losun hafta á komandi vikum. Spurði hann hvaða tilkynning þetta væri ef menn teldu mikilvægt að halda trausti, eins og væri uppálagt fyrir nefndarmenn í samráðsnefndinni.
Upplýst var á þingfundinum að Sigmundur væri á fundi um losun gjaldeyrishöft og spurði Guðmundur hvað kæmi fram á þeim fundi. „Hvaða fundur er þetta um höftin og af hverju er ég ekki þar?“