„Ekki margar Hrefnur Maríur í skíðadeild ÍR“

Arndís og
Arndís og "ÍR-ingurinn" Alexander. Ljósmynd úr einkasafni.

„Ég setti peysuna nú bara í Rauða kross gám í Hafnarfirði,“ segir Hrefna María Pálsdóttir, en peysan hennar rataði til Tansaníu, þar sem hún varð á vegi Arndísar Jónu Guðmundsdóttur.

Frétt mbl.is: Rakst á „ÍR-ing“ í Tansaníu.

„Það er dálítið langt síðan, því ég hef ekki séð peysuna lengi.“ Henni var skiljanlega brugðið þegar peysan dúkkaði upp í Tansaníu. „Ég var bara í tíma í skólanum og datt eiginlega alveg út og hætti að fylgjast með þegar ég sá fréttina,“ segir hún og hlær.

„Þetta var mjög fyndið, ég kannaðist við peysuna á myndinni þegar ég sá hana á Facebooksíðu mbl og prófaði að smella á fréttina. Svo sé ég bara nafnið mitt á peysunni, það eru kannski ekki margar Hrefnur Maríur í skíðadeild ÍR. Þetta var eitthvað sem ég bjóst ekki alveg við.“

Hún segist hafa gefið Rauða krossinum peysuna þegar hún var að taka til í fataskápnum sínum.

Fatagjafir mikilvægar fyrir Rauða krossinn

Örn Ragnarsson, sviðsstjóri fatasöfnunar Rauða krossins var að vonum ánægður að sjá að peysa frá Íslandi hafi skilað sér til Tansaníu. „Þegar fólk setur föt í fatagáma hjá okkur þá kemur það í flokkunarstöðvarnar, þar sem við vinsum úr það sem við getum nýtt innanlands, bæði í fjáröflunarskyni og í hjálparstarf,“ segir Örn.

Afgangurinn segir hann að sé seldur úr landi til flokkunarfyrirtækja í Hollandi og Þýskalandi. „Þýska fyrirtækið, sem kaupir um það bil 85% af því sem við getum ekki nýtt sjálf, flytur mjög mikið til Austur-Afríku.“ Peysan gæti því hafa ferðast frá Íslandi til Þýskalands og þaðan til Tansaníu.

„Við sendum annars mest af fötum til Hvíta-Rússlands og núna síðast fór sending til Síerra Leóne,“ bætir Örn við. Hann veit ekki nákvæmlega hvenær peysan kann að hafa farið úr landi, en segist muna eftir ÍR-peysum í söfnunargámum Rauða krossins á síðasta ári.

Örn hvetur alla sem taka til í fataskápnum sínum og íhuga að henda fötum að koma þeim frekar til Rauða krossins, því öll föt geti nýst, ýmist í hjálparstarfi eða við fjáröflun hjálparstarfs. „Þetta er mjög mikilvægt verkefni, bæði fyrir okkar hjálparstarf og fjáröflun. Peningarnir sem koma inn fyrir fötin eru notaður hvort tveggja innanlands og erlendis,“ segir Örn.

Frétt mbl.is: Rakst á „ÍR-ing“ í Tansaníu.

Hrefna María.
Hrefna María.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert