Pole Sport, Pole Fitness eða súlufimi er ekki algeng íþrótt hér á landi en hinsvegar stækkar hópurinn ört sem stundar hana. Fyrir viku fór Íslandsmót fram í Gaflaraleikhúsinu þar sem 22 keppendur voru skráðir til leiks.
Skipuleggjendur bjuggust við 80 – 100 áhorfendum en mótinu seinkaði vegna þess að stöðugur straumur var af áhorfendum og þurftu skipuleggjendur að hlaupa til og ná í stóla. Þegar mótið hófst var þétt setinn bekkurinn og mikið fjör.
Dómarar í keppninni voru rússneskir súlufimi-dansarar, Evgeny Greshilov og Kira Noire. Greshilov er þrefaldur heimsmeistari og þrefaldur rússneskur meistari, svo fátt eitt sé nefnt en Noire er stórt nafn í súlufimi-dansheiminum.
Að sögn Halldóru Kröyer, sem var ein af þeim sem skipulögðu mótið, voru Rússarnir hrifnir af fiminni á súlunni. Fóru þau sérlega fögrum orðum um Sól Stefánsdóttur en hún vann afreksflokkinn á mótinu, flokk sem er skipaður þeim sem reyndastar eru og bestar.
Spennan var mest í framhaldsflokknum en þar var það Karen Sif Óskarsdóttir sem vann með aðeins hálfu stigi. Hlaut 35,5 stig en mest er hægt að fá 40 stig.
Karen segir að hún hafi byrjað í súlufimi árið 2012 en hún var áður í fimleikum. „Ég var í fimleikum í 12 ár en hætti 2009. Byrjaði svo í þessu og finn mig vel. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og finn hvernig ég get notað styrkinn og liðleikann frá fimleikunum í þessari íþrótt.“
Súlufimi reynir gríðarlega á styrk og þeir sem hafa prófað ganga nánast jafnsveittir út og eftir hot-jóga. „Ég var einmitt ekki viss hvort ég myndi lifa af fyrsta tímann. Þetta eru mikil átök.“
Karen æfir sig ekki aðeins í íþróttahúsinu því hún hefur sett upp súlu heima hjá sér. „Það hefur alveg komið fyrir að fólk grínast með það að ég sé með súlu í stofunni en næsta spurning er alltaf: Er þetta ekki erfitt? Það virðast vera stöðluð viðbrögð. Fyrst að gera grín og svo að spyrja.
Tíðarandinn hér á landi hefur breyst. Það fyrsta sem fólki dettur í hug, þegar það sér súlu, er ekki lengur að ég sé strippari. Þetta er tvennt ólíkt og það eru reglur um að atriðin eigi ekki að vera kynferðisleg.“
Atriði Sólar Stefánsdóttur
Atriði Karenar