Kalt sumar framundan?

Það borgar sig sennilega að pakki ekki úlpunni inn í …
Það borgar sig sennilega að pakki ekki úlpunni inn í skáp fyrir sumarið. mbl.is/RAX

Mikið hefur verið rætt um komandi sumar hér á landi og hvort veðrið verði landsmönnum hliðhollt eður ei. Trausti Jónsson veðurfræðingur hefur rýnt í nýjustu spá Evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir tímabilið júní, júlí og ágúst og telur að hér verði hiti undir meðallagi miðað við síðustu fimmtán ár, sem hafi að meðaltali verið mjög hlý hér á landi. „Hitinn er undir meðallagi í sjónum þarna langt fyrir suðvestan land og ef vindátt þaðan verður ríkjandi eru því líkur á að hitinn verði undir meðallagi,“ segir Trausti og bætir við að það skipti höfuðmáli hvaðan vindurinn blæs.

„Ef suðvestanátt er ríkjandi á sumrin þá er rigning á Suðvesturlandi og frekar kalt. Það hefur ekkert með sjávarhita að gera. Ef vindurinn verður vestlægur þá er bjart á Vesturlandi og sjávarhitinn suðvestur í hafi hefur ekkert með það að gera, því vindurinn blæs ekki þaðan,“ segir Trausti og ítrekar að ekki sé enn hægt að spá um það með góðu móti hvernig sumarveðrið verði.

Hins vegar segi Evrópureiknimiðstöðin að spár hennar reynist réttar í allt að 40% tilvika. Af þeim sökum geri hann grein fyrir henni í umfjöllun á heimasíðu sinni en til samanburðar er spá bandarísku veðurstofunnar heldur neikvæðari fyrir íslenska sumarið. Lykilatriði sé þó að spárnar sem skoðaðar eru séu sem nýjastar.

30% líkur á að úrkoma verði yfir meðallagi

„Spá Evrópureiknimiðstöðvarinnar gerir þannig ekki ráð fyrir rigningasumri á Suðvesturlandi,“ segir hann þótt engin vissa sé til staðar enn. Segir hann þó að þessi spá gefi til kynna að ekki séu nema 30% líkur á því að úrkoman verði yfir meðallagi en almennt séu um 50% líkur á því. Þá sé loftþrýstingi spáð yfir meðallagi en það sé ekki ávísun á lægðagang. „Staðreyndin er sú að þessar rigningaspár sem menn hafa verið að tala um á netinu og víðar eru spár sem gerðar voru fyrir um mánuði,“ segir Trausti og telur slíkar spár því ekki áreiðanlegar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert