Fyrrverandi embættismaður í félagsmálaráðuneytinu sat báðu megin við borðið þegar hann samdi fyrir hönd ríkisins um kaup á hugbúnaði af fyrirtæki sem hann var sjálfur í forsvari fyrir. Samið var um fjögur hugbúnaðarverkefni en ekkert þeirra er hins vegar í notkun í dag. Kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra nam hátt í tvö hundruð milljónum króna á núvirði.
Fjallað var um málið í Kastljósi Ríkisútvarpsins í kvöld en ekkert umræddra verkefna var boðið út. Þess í stað var samið við fyrirtækið Forsvar á Hvammstanga sem Garðar Jónsson, þáverandi skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, var stjórnarformaður í. Einungis eitt umræddra hugbúnaðarkerfa var tekið í notkun og þá aðeins tímabundið. Upplýsingakerfi vegna þjónustu við fatlaða. Bæði félagsmálaráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið sömdu við fyrirtækið um hugbúnaðarkerfin fjögur.
Haft var eftir Eiríki Karli Ólafssyni Smith, verkefnastjóra í fötlunarfræði við Háskóla Íslands, í þættinum að flestir myndu segja að um einhvers konar spillingu væri að ræða. Óvönduð stjórnsýsla væri líklega smekklegra orðalag.