Þjóðskrá Íslands hefur í rúmt ár skráð fullt nafn nýskráðra einstaklinga í þjóðskrá og auk þess unnið að því að skrá og staðfesta full nöfn þeirra sem þegar eru skráðir.
Verkefnið er umfangsmikið og hafa komið upp nokkur dæmi um misræmi, t.a.m. þegar einstaklingur ber nöfn sem honum var ekki kunnugt um eða taldi að felld hefðu verið niður af einhverjum ástæðum.
Þetta kemur fram í frétt frá Þjóðskrá Íslands.
317 manns hafa ákveðið að fella niður nöfn sem þeir báru samkvæmt upprunagögnum.
Ástæður fyrir því að einstaklingur ákveður að fella niður nöfn geta verið margvíslegar, t.d að honum var ekki kunnugt um að hann bæri tiltekið nafn eða vildi ekki af einhverjum ástæðum að það yrði skráð til fulls og kæmi fram í vegabréfi viðkomandi eða annars staðar.
Búið er að skrá og staðfesta fullt nafn hjá 33% skráðra einstaklinga í þjóðskrá sem eru með lögheimili á Íslandi eða um hundrað þúsund manns.