Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, ávarpaði fermingarbörn við borgaralega fermingu Siðmenntar um helgina. Sagði hann fermingarbörnunum að hann vildi að þau breytti heiminum til hins betra. „Engin pressa samt,“ sagði Sævar Helgi.
Hann lýsti meðal annars fyrir fermingarbörnunum hvernig þau væru öll í raun búin til úr innyflum risavaxinna sólstjarna og þau væru því gáfaðar leifar sprunginna stjarna sem velta eigin uppruna og örlögum fyrir sér. Þá sagðist hann hafa velt því fyrir sér að tala um hluti eins og mannréttindi, mikilvægi þess að geta sett sig í spor annarra, sýna samkennd og sýna öðru fólki virðingu og kærleika.
„...eða þá staðreynd að þið eruð öll svo til fullkomin frá náttúrunnar hendi og að þið ættuð aldrei nokkurn tímann að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst um ykkur eða hvernig þið lítið út. Þið eruð nefnilega frábær eins og þið eruð, stútfull af hæfileikum sem þið eigið að rækta og nýta, ykkur sjálfum til góða en þó aðallega samfélaginu og plánetunni okkar til góða,“ sagði Sævar Helgi.
Hann vildi nefnilega að krakkarnir breyttu heiminum.
„Þið og börnin ykkar í framtíðinni þurfið að breyta heiminum til hins betra. Engin pressa samt. Hvernig getum við breytt heiminum? Við getum til dæmis byrjað á okkur sjálfum. Ég trúi því að við viljum öll vera besta útgáfan af sjálfum okkur,“ sagði hann.
Til þess að vera besta útgáfan af sjálfum sér væri best að láta hjartað ráða för og láta gott af sér leiða.
„Í fyrra átti ég mér þann stóra draum að gera öllum grunnskólanemendum og kennurum á Íslandi kleift að sjá sólmyrkvann. Af hverju? Fyrri ástæðan var einfaldlega sú að sem flestir fengju að sjá magnað, ógleymanlegt, furðulegt og vonandi áhrifaríkt sjónarspil. Hin ástæðan var sú, að reyna að efla áhuga ykkar á vísindum og náttúrunni. Hvers vegna? Vegna þess að áhuga á vísindum fylgja gjarnan tvö tól sem eru einstaklega dýrmæt í daglegu lífi: Forvitni og efi.“
Lauk Sævar Helgi ræðu sinni á að fara með fræg orð stjörnufræðingsins Carl Sagan sem lét Voyager-geimfarið snúa sér við á leið sinni út úr sólkerfinu og taka mynd af jörðinni í fjarska. Sagði Sævar Helgi að textinn sem Sagan skrifaði um myndina ætti að vera skyldulesning í öllum skólum heims eða kannski frekar meitlaður í stein hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem allir þjóðarleiðtogar sæju hann.
Texti Sagan er eftirfarandi:
„Frá þessum fjarlæga sjónarhóli virðist Jörðin ekkert sérstaklega áhugaverð. En fyrir okkur horfir það öðruvísi við. Líttu aftur á þennan punkt. Þetta er hér. Þetta er heimilið okkar. Þarna erum við. Þarna hafa allir sem þú elskar, allir sem þú þekkir, allir sem þú hefur nokkurn tíma heyrt getið, hver einasta manneskja sem til hefur verið, lifað lífi sínu.
Hugsaðu þér blóðsúthellingarnar af völdum allra þessara hershöfðingja og keisara svo þeir gætu, í dýrðarljóma og sigurvímu, orðið tímabundnir valdsherrar á brotabroti af punkti. Hugsaðu þér alla þá endalausu grimmd sem íbúar eins hornsins á þessum punkti beita öðrum vart aðgreinanlegum íbúum einhvers annars horns, hve oft þeir misskilja hver aðra, hve áfjáðir þeir eru um að drepa hver aðra, hve ákaft hatur þeirra er.
Jörðin eini hnötturinn sem við vitum um hingað til að geymir líf. Við getum hvergi annars staðar farið, að minnsta kosti í náinni framtíð. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er Jörðin, í augnablikinu, þar sem við stöndum og föllum.
Ef til vill sýnir ekkert betur heimsku hroka mannanna en þessi fjarlæga mynd af örlítilli veröld okkar. Fyrir mér undirstrikar hún ábyrgð okkar að hugsa betur hvort um annað og varðveita og vernda eina heimilið sem við þekkjum, föla bláa punktinn.“