Frekar skanna en hús segir Kári

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Kristinn Ingvarsson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að það væri nær að halda upp á 100 ára fullveldi Íslands með því að flytja jáeindaskanna til landsins í stað þess að ljúka byggingu húss.

Í greininni fjallar hann um  yfirlýsingu forsætisráðherra um það hvernig hann vill að við höldum upp á hundrað ára afmæli 1. desember 1918.

Forsætisráðherra hefur áhuga á byggingum og skipulagsmálum

„Það á að gera með því að ljúka við byggingu húss yfir stofnun íslenskra fræða. Hann hefur nefnilega áhuga á byggingum og skipulagsmálum eins og Karl Bretaprins. Áhugans vegna virðist honum annaðhvort hafa gleymst að 1. desember 1918 hlutum við Íslendingar töluvert sjálfstæði frá Dönum eða honum hefur yfirsést að við erum að glata því aftur að hluta. Og hvernig í ósköpunum hefur það gerst? Það hefur gerst með því að jáeindaskannar hafa orðið nauðsynleg tæki í nútíma læknisfræði og Danir eiga slíkan en við ekki.

Á síðasta ári sendum við 100 sjúklinga til Kaupmannahafnar í jáeindaskanna og í ár verða þeir að öllum líkindum 200. Við getum ekki lengur sinnt sjúklingum okkar án þess að leita á náðir Dana. Það er með öllu óásættanlegt og í engu samræmi við þær væntingar sem Íslendingar höfðu í byrjun desember árið 1918.

Það væri miklu nær andanum að baki fyrsta desember að halda upp á hundrað ára afmæli hans með því að flytja jáeindaskanna til landsins og endurheimta á þann hátt það sjálfstæði frá Dönum sem við viljum hafa og forfeður okkar börðust fyrir,“ skrifar forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag en hægt er að lesa greinina í heild í gagnasafni Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert