Ef af yfirvofandi verkfalli Starfsgreinasambandsins verður gæti það haft gríðarlega slæm áhrif á ferðaþjónustuna og langvarandi verkfall verið rothögg fyrir mörg fyrirtæki út á landi sem hafa byggt sig upp í kringum aukinn ferðamannastraum.
Þetta segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í samtali við mbl.is. Atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun stendur nú yfir en eins og mbl.is hefur sagt frá gæti verkfallið náð til þúsunda starfsmanna í ferðaþjónustunni á landsbyggðinni.
Samkvæmt upplýsingum frá Starfsgreinasambandinu munu um 10 þúsund manns kjósa um verkfallsboðun. 41% þeirra eru á matvælasviði og 29% í ýmsum þjónustugreinum. Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir að stór meirihluti þeirra sem falli í þessa tvo flokka komi að ferðaþjónustu. Er þar um að ræða ófaglært fólk sem starfar við framreiðslu í mötuneytum og veitingastöðum, þjónustufólk á hótelum, ræstingarfólk og starfsmenn í allskonar afþreyingariðnaði fyrir ferðamenn.
Helga segir fjölda þeirra sem tengjast ferðaþjónustu og gætu verið á leið í verkfall ekki liggja nákvæmlega fyrir. Hún segir stöðuna þó grafalvarlega. „Þetta mun snerta ferðaþjónustu um allt land ef af verkfalli verður,“ segir Helga og bætir við að hún hafi að sjálfsögðu áhyggjur af málinu.
„Fyrirtækin verða að ráða við hækkunina,“ segir Helga um kröfur Starfsgreinasambandsins, en ein af grunnkröfunum er að lægstu laun hækki upp í 300 þúsund krónur. „Það er verið að fara fram á umtalsverðar hækkanir,“ segir Helga og bendir á að sumir hópar geti verið að hækka um allt að 50-70% á þriggja ára tímabili.
Hún segir að mikið hafi verið lagt í fjárfestingar fyrirtækja á landsbyggðinni undanfarin ár og að verkfall geti sett þau á hliðina. Nefnir hún sérstaklega minni fyrirtæki sem hafi ekki jafn mikið á bak við sig og stærri fyrirtæki. „Minni fyrirtæki á landsbyggðinni, þau mega ekki við slíkum hækkunum,“ segir Helga.
Undanfarið hefur mikið verið rætt um að auka þurfi menntun í greininni og byggja upp störf sem séu eftirsóttari en nú er og hefur hækkun launa verið einn af meginþáttum sem horft er til. Aðspurð hvort hærri laun muni ekki virka hvetjandi á greinina í heild segir Helga að greinin hafi þróast mikið undanfarið og að hún sé í dag meiri heilsárs atvinnugrein um allt land en áður var. Þannig hafi framleiðni aukist og fastráðning starfsmanna sé meiri. Hún segir samt ljóst að hækkunin sé talsvert yfir þeim árangri sem hafi náðst og að hækkun launa þurfi að fylgja framleiðniaukningu, en ekki öfugt.
Atkvæðagreiðslu um möguleg verkföll lýkur næstkomandi mánudag og segir Helga að fyrirtækin fylgist grannt með stöðu mála. Segir hún ábyrgð samningsaðila mikla og að viðræðurnar snerti ferðaþjónustu um allt land á einum mikilvægasta tíma ársins. „Verkföll myndu skapa ófremdarástand og við eigum öll gífurlega mikið undir í þessu máli,“ segir Helga.
Þá bendir hún á að Ísland sé í mikilli samkeppni við aðra áfangastaði og í verkföllum flugstétta hafi það sést vel hvernig ferðaskrifstofur bregðist við. Segir hún að menn séu fljótir að afbóka ef verkfallsaðgerðir fari að spyrjast út.