Engar lögbókandagerðir eru framkvæmdar á meðan á verkfalli lögfræðinga hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu stendur yfir.
Í áraraðir hefur það verið hlutverk lögbókanda hjá sýslumanninum í Reykjavík, nú á höfuðborgarsvæðinu, að fylgjast með og staðfesta niðurstöðu íslensku dómnefndarinnar í Eurovision.
Dragist verkfallið á langinn má ætla að spurningamerki sé sett við þátttöku Íslands í Eurovision. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Bandalags háskólamanna.
Þess má einnig geta að engin þinglýsing fer fram né heldur aflýsing skjala. Afleiðingar þessa er meðal annars það að engum kaupsamningum eða veðbréfum og öðrum skjölum er þinglýst, þar af leiðandi verður að ætla að lánastofnanir greiði ekki út lán
Þá eru engin ný leyfi gefin út né gildandi leyfi endurnýjuð. Af því má leiða að leyfi séu að renna út og má gera ráð fyrir að lögreglan muni loka stöðum sem engin leyfi hafa til slíks reksturs. Nú þegar bíða hátt á annað þúsund skjöl eftir þinglýsingu.
Pantaðir tímar hjá lögfræðingum í sifjamálum, lögráðamálum, ættleiðingum og dánarbúsmálum falla niður. Þá er eigi unnt að ljúka neinum málum né stofna ný mál þar sem atbeina lögfræðings er þörf, sem er víða. Engin fjárnám eða aðrar aðfarargerðir fara fram, svo sem eins og nauðungarsölur, útburðir eða kyrrsetningar.