Þingmenn bæði úr röðum stjórnarliða og stjórnarandstöðunnar komu í ræðustól Alþingis við upphaf þingfundar í dag og fóru hörðum orðum um þá ákvörðun aðalfundar HB Granda um hækkun launa stjórnarmanna félagsins um 33% eða úr 150 þúsund krónum í 200 þúsund krónum. Á sama tíma stefndi í harðar kjaradeilu þar sem almennum starfsmönnum þess væri boðin 3,3%.
„Þessi ákvörðun hefur framkallað mikla og skiljanlega reiði hjá landverkafólki fyrirtækisins. Þetta virðist hleypa mun meiri hörku í samningaviðræðurnar og skal engan undra það. Erfitt getur verið að átta sig á hvers vegna það virðist vera í lagi að veita ákveðnum hópi tíu sinnum meiri launahækkanir en eru í boði fyrir aðra hópa,“ sagði Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Spurði hún hvers vegna þessar hækkanir væru ekki taldar ógna stöðugleika í landinu líkt og talað væri um í tilfelli lægst launuðu hópanna.
„Stjórnarmenn HB Granda eiga að skammast sín að sýna starfsfólki sínu slíka fyrirlitningu sem felst í þessari hækkun stjórnarlauna á sama tíma og verkafólk hefur varla í sig og á þrátt fyrir langan vinnudag,“ sagði Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir með Elsu og Bjarkey. Vakti hann ennfremur athygli á að til stæði að færa fyrirtækinu milljarða í gegnum markrílkvóta.