Hæsta stofnvísitala þorsks frá upphafi mælinga

Stofnvísitala þorsks, í nýafstöðnu togararalli,  mældist sú hæsta frá upphafi rannsóknanna árið 1985 og er nú tvöfalt hærri en árin 2002-2008, en svipuð og hún var árið 2012.  

Fyrsta mat á 2014 árgangi þorsks bendir til að hann sé meðal stærstu árganga frá 1985, svipaður og árgangar 2008, 2009 og 2011. Hann kemur í kjölfar lítils árgangs frá 2013.

Að sögn Hafrannsóknastofnunar má einkum rekja hækkun stofnvísitölu þorsks til aukins magns af stórum þorski. Í ár var vísitala allra lengdarflokka stærri en 60 cm yfir meðaltali tímabilsins, en minna mældist af 50-60 cm þorski sem rekja má til lélegs árgangs frá 2010.

Meðalþyngd 5 ára þorsks og eldri hefur farið vaxandi undanfarin ár og er nú yfir meðaltali
rannsóknatímans, en meðalþyngd 3 og 4 ára þorsks er hins vegar nokkuð undir meðaltali. Magn fæðu í þorski var minna en árin 2010-2014. Loðnan var lang mikilvægasta bráð þorsksins eins og ávallt á þessum árstíma. Mest var af loðnu í mögum þorsks út af Vestfjörðum, við suðurströndina og Norðausturland. Af annarri fæðu má helst nefna síld, kolmunna, ísrækju og ýmsar tegundir fiska.

Stofnvísitala ýsu  er svipuð því sem verið hefur í marsralli frá árinu 2010. Hafrannsóknastofnun segir, að lengdardreifing ýsunnar sýni að ýsa minni en 58 cm sé undir meðaltali í fjölda, en stærri ýsa sé yfir meðaltali. Lengdardreifing og aldursgreiningar bendi  til að árgangurinn frá 2014 sé stór eftir röð sex lítilla áranga.

Segir Hafrannsóknastofnun að niðurstöður mælingarinnar bendi til að ástand helstu botnfiskasé gott og að bæði þorskárgangur og ýsuárgangur 2014 séu stórir.  Niðurstöðurnar séu mikilvægurþáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunar á ástandi nytjastofna við landið. Lokaúttekt á niðurstöðum og tillögur stofnunarinnar um aflamark

fyrir næsta fiskveiðiár verða kynntar í fyrrihluta júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert