Hinseginfræðsla í hafnfirska skóla

Nemendur í Hafnarfirði munu fá hinseginfræðslu samkvæmt nýrri tillögu sem …
Nemendur í Hafnarfirði munu fá hinseginfræðslu samkvæmt nýrri tillögu sem var samþykkt í bæjarstjórn. mbl.is/Ómar

Hafnarfjörður verður fyrsta bæjarfélagið á Íslandi til að bjóða nemendum grunnskóla upp á hinseginfræðslu eftir að bæjarstjórn bæjarins samþykkti tillögu þar að lútandi í dag. Nemendum verður meðal annars boðið í viðtal hjá ráðgjöfum Samtakanna 78 og þá verður þróað námsefni fyrir alla bekki grunnskóla.

Tillagan var lögð fram af Evu Lín Vilhjálmsdóttur, varabæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, að frumkvæði Bersans - Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði. Í tilkynningu frá ungliðahreyfingunni er haft eftir Óskari Steini Ómarssyni, formanns félagsins, að þau séu í skýjunum með niðurstöðuna. „Við erum virkilega stolt af okkar fulltrúum og ánægð með þann hljómgrunn sem tillagan fékk í bæjarstjórn. Nú er næsta mál á dagskrá að tryggja fjármagn og eftirfylgni,“ segir Óskar.

Tillagan er í þremur liðum og er markmið hennar að bæta stöðu hinsegin ungmenna í grunnskólum bæjarins og sporna gegn fordómum:

  • Starfsmenn grunnskóla Hafnarfjarðar fái fræðslu frá fulltrúum Samtakanna 78. 
  • Öllum nemendum skólanna standi til boða að fá viðtal hjá ráðgjöfum Samtakanna 78 nemendunum að kostnaðarlausu. 
  • Hafnarfjarðarbær hefji samstarf við Samtökin 78 um þróun námsefnis fyrir alla bekki grunnskóla.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka