Mikilvægt er að samkeppni þrífist í póstþjónustu líkt og á öðrum sviðum. Það gerist ekki ef fyrirtæki í eigu ríkisins eru starfandi á samkeppnismarkaði. Þetta kom meðal annars fram í máli Ólafar Nordal innanríkisráðherra í sérstökum umræðum á Alþingi í dag um stöðu Íslandspósts. Sagðist hún ekki sjá fyrir sér að ríkið sæi um póstþjónustu um alla framtíð. Það kæmi ekki til greina að hennar mati.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, var málshefjandi og vildi hann vita hvort til stæði að afnema einkarétt Íslandspósts á dreifingu bréfa undir 50 grömmum og innleiða tilskipun Evrópusambandsins um frjálsa póstflutninga. Sagði hann núverandi fyrirkomulag vera úrelt þar sem gert væri ráð fyrir því að það væru „grunnmannréttindi að fá til sín sent bréf skrifað með bleki“ hvern einasta virkan dag alla daga ársins. Svo virtist sem gildandi lög gerðu ekki náð fyrir þeim miklu netsamskiptum sem hefðu rutt sér til rúms.
Ólöf vísaði í svari sínu til könnunar Póst- og fjarskiptastofnunar frá 2012 sem benti til þess að flestir teldu ekki þörf á því að fá póst alla virka daga. „Þar var meðal annars spurt hversu vel það mundi henta viðkomandi að fá póst þrisvar sinnum í viku, en ekki á hverjum degi eins og við þekkjum í dag. Svarið var, og þetta var auðvitað fólk af öllu landinu, að það þjónaði 60% svarenda mjög vel. Af því má ætla, að mínu mati, að í hugum fólks sé póstþjónusta fimm daga vikunnar ekki eins mikilvæg og hún var áður.“
Skilgreina þarf grunnþjónustuna
Ráðherrann sagði að til stæði að afnema einkarétt Íslandspósts í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins. Samkvæmt henni væri ríkinu hins vegar heimilt að leggja til fjármagn til þess að tryggja ákveðna grunnþjónustu við almenning sem hún teldi rétt að gera. Ekki lægi hins vegar fyrir með hvaða hætti það yrði gert. Ljúka þyrfti vinnu við skilgreiningu á því hvað teldist grunnþjónusta í þeim efnum.
„Ég er ekki búin að mynda mér neina endanlega skoðun á þessu en ég hallast að því að það sé á ábyrgð ríkisins að tryggja þessa grunnþjónustu, það sé hlutverk ríkisins, og það finnst mér eiga við á öllum sviðum mannlífsins, að passa hér upp á að innviðirnir og grunnarnir séu í lagi. Síðan eigum við, að mínu mati, að leyfa samkeppninni að njóta sín og ég tel að það sé mest til hagsbóta fyrir neytendur í þessu landi.“