Samið við tæknimenn RÚV

Samningar hafa náðst á milli RÚV og tæknimanna hjá fyrirtækinu sem eru félagar í RSÍ. Á fundi hjá Ríkissáttasemjara nú um klukkan 15:30 skrifuðu fulltrúar tæknimanna og stjórnendur RÚV undir nýjan fyrirtækjasamning sem hvílir á grunni hins almenna samnings.

Sem kunnugt er höfðu viðræður staðið í nokkurn tíma og boðað hafði verið til verkfalls sem hefjast átti í fyrramálið. Með undirritun samningsins er fallið frá verkfalli en félagsmenn munu greiða atkvæði um samninginn nú síðdegis.

Kristín Þóra Harðardóttir, lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, segir að samingurinn byggi á heimild í kjarasamningum um að fyrirtæki og starfsmenn geri með sér samning sem eigi að leiða til hagsbóta fyrir báða aðila. Slíkur samningur hafi verið ræddur áður en ekki hafi gengið saman fyrr en nú.

„Aðalatriðið er að það er verið að viðurkenna sérstöðu tæknimanna hjá RÚV sem hefur ekki beinlínis átt sér stað í kjarasamningi RSÍ og SA,“ segir hún.

Fyrirtækjasamningurinn mun fylgja aðalkjarasamningi RSÍ og SA hvað varðar samningstíma en viðræður um nýjan kjarasamning standa nú yfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert