Páll Halldórsson, formaður Bandalags háskólamanna, segir sjúklinga ekki notaða í kjarabaráttu BHM nema af hálfu ríkisins. Hinrik A. Hansen, krabbameinssjúklingur, skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í morgun þar sem hann sakaði BHM um að notfæra sér sjúklinga í kjarabaráttu sinni.
„Í dag eru 17 aðildarfélög BHM í verkfalli. Heildarfjöldi félagsmanna BHM er 3.009 og þar af eru 108 í Félagi geislafræðinga,“ skrifar hann en verkfall Félags geislafræðinga varð til þess að hann var sendur heim á miðvikudaginn í síðustu viku þegar hann átti að mæta í myndatöku. Vegna þessa er lyfjameðferð hans nú stopp og bíður hann eftir því að komast í myndatöku hjá geislafræðingum.
Frétt mbl.is: Hlé á lyfjameðferð vegna verkfalls
Páll vísar gagnrýni Hinriks á bug og segir að ef einhver notfæri sér sjúklinga í kjarabaráttu þá sé það íslenska ríkið.
„Þá má segja að ríkið sé að notfæra sér sjúklinga í kjarabaráttu. Ef að það er einhver mórölsk krafa um að vera á lágum launum þegar verið er að sinna sjúklingum þá er verið að nota sjúklinga í kjarabaráttu af ríkinu,“ segir Páll.
Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga, segir það alveg klárt að markmiðið með verkfallinu sé ekki að skaða fólk. Hún segir að það liggi fyrir samþykki um að fólk í stöðu Hinriks sé flokkað sem bráðatilfelli og á verkfallið ekki að hafa áhrif á, eða stöðva krabbameinsmeðferð.
Hún segir Landspítala sinna þessum sjúklingum eftir hennar bestu vitund en getur ekki tjáð sig um einstaka tilfelli. Það er mjög ákveðið verklag í kringum það hvaða tilfelli eru flokkuð sem bráðatilfelli að hennar sögn.
„Það er mjög ákveðið verklag í kringum það og eru læknarnir þeir sem ákveða þetta,“ segir hún og bætir við að það safnist mikið af verkefnum upp en að geislafræðingar segi ekki nei við því sem frá læknunum kemur.
„Það er bið og það er röð en markmiðið með þessu verkfalli er ekki að skaða fólk,“ segir Katrín.