Ritstjóri Stundarinnar segir gagnrýni borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina á vinnubrögð blaðsins ekki á rökum reista. Reynt hafi verið að leita viðbragða oddvita flokksins við ummælum áheyrnarfulltrúa hans um múslíma og ekki hafi verið haldið fram að þau væru stefna flokksins.
Haft var eftir Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, á mbl.is í hádeginu að hún hafi orðið reið þegar hún sá að ummæli sem Rafn Einarsson, áheyrnarfulltrúi flokksins í hverfisráði Breiðholts, lét falla um múslíma á Facebook væru tengd við flokkinn í umfjöllun Stundarinnar. Gagnrýndi hún blaðið meðal annars fyrir að leita ekki viðbragða hjá fulltrúum flokksins.
Í tilefni af þessari gagnrýni sendi Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir hana ekki á rökum reista eins og sjá megi af lestri greinar blaðsins.
„Guðfinna segir að ekki hefði verið haft samband við fulltrúa flokksins. Eins og fram kemur í greininni á Stundinni var reynt að ná í Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur borgarfulltrúa, en hún svaraði ekki í tvígang,“ segir í yfirlýsingu ritstjórans.
Í greininni sé vitnað í mannréttindastefnu Framsóknar og sérstaklega tekið fram að orð fulltrúa flokksins gangi í berhögg við yfirlýsta stefnu flokksins. Fréttin snúi að því að þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar forystu Framsóknarflokksins um að flokkurinn styðji ekki við rasísk viðhorf séu endurtekin dæmi um að flokkurinn velji fulltrúa sem halda slíkum viðhorfum á lofti.
Fyrri frétt mbl.is: Fulltrúinn víkur úr hverfisráði