Eyða áhættu við afnám hafta

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Krist­inn Ingvars­son

Ekki stendur til að ráðast í afnám gjaldeyrishafta sem leiðir til hættu á falli gengis krónunnar. Grunnurinn að allri vinnu við losun haftanna er að eyða slíkri áhættu. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði fjármálaráðherra út í yfirlýsingar forsætisráðherra á flokksþingi Framsóknarflokksins á föstudag um afnám haftanna. Spurði hún hvað ríkisstjórnin hygðist gera til að vernda heimilin í landinu fyrir afleiðingum þess og innti hún fjármálaráðherra sérstaklega eftir því hvort að til greina kæmi að aftengja vísitölu þegar höftin yrðu losuð þar sem ekki stæði til að afnema verðtrygginguna.

Bjarni sagðist deila bjartsýni forsætisráðherra á að hægt yrði að grípa til aðgerða til að losa höftin á þessu ári. Stjórnvöld séu langt á veg komin með vinnu í þá átt.

„Það er kjarninn, það er grunnurinn að allri vinnunni við haftalosunina að eyða áhættunni sem fylgir slitabúunum og snjóhengjunni. Það er kjarnaatriðið. Þess vegna hefur þetta tekið þennan tíma. Það er svarið. Svarið er að við ætlum ekki að fara í neitt haftaafnám sem leiðir til þess að það skapast hætta á falli á gengi krónunnar,“ sagði Bjarni.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka