„Lýsir bæði taktleysi og siðleysi“

mbl.is/Eggert

Hækkun stjórnarlauna hjá HB Granda um 33% og háar arðgreiðslur til eigenda fyrirtækisins eru fordæmdar í ályktun sem stjórn Eflingar stéttarfélags hefur sent frá sér. Framgangan sé blaut tuska framan í starfsmenn HB Granda og launafólk almennt í þeim kjaraviðræðum sem standi yfir. Á sama tíma sé launafólki boðin 10% af þessari hækkun. Er þess krafist að hækkunin verði dregin til baka.

„Ákvörðunin lýsir bæði taktleysi og siðleysi gagnvart fólkinu á gólfinu sem hefur byggt upp HB Granda með vinnu sinni og aukinni framleiðslu ár eftir ár. Þetta er óboðlegt. Efling-stéttarfélag fordæmir einnig ákvörðun stjórnar HB Granda fyrir þær arðgreiðslur sem fyrirtækið hefur ákveðið að færa eigendum sínum á síðasta aðalfundi fyrirtækisins. Í stað þess að fyrirtækið deili ávinningnum af uppbyggingu og arðsemi af rekstri með starfsmönnum sínum, hafa eigendur ákveðið að taka allan arðinn sem deilt er út í eigin vasa,“ segir í ályktuninni.

Þar segir ennfremur að með ákvörðuninni hafi stjórn HB Granda sett alla framvindu kjarasamningaviðræðna í uppnám. „Efling-stéttarfélag krefst þess að stjórn HB Granda verði þegar í stað kölluð saman til að afturkalla þessar ákvarðanir og taka nýjar sem taka mið af hagsmunum starfsmanna fyrirtækisins og þörfum samfélagsins sem við búum í.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert