„Saga landnáms Íslands er líklega flóknari en talið hefur verið,“ segir vesturíslenski fornleifafræðingurinn Kristján Ahronson.
Hann kynnir í fyrirlestri í Háskóla Íslands í dag rannsóknir sem hann hefur gert á nokkrum þeirra mörgu manngerðu hella sem eru á Suðurlandi og krossum sem ristir hafa verið á veggi þeirra.
Ásamt félögum sínum fann Kristján aðferð til að tímasetja hvenær Kverkhellir nærri Seljalandsfossi hefur verið gerður. Þeir leituðu að efninu sem mokað hefur verið úr hellinum, fundu hauginn og notuðu gjóskulög til tímasetningar. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur m.a. fram, að þeir hafa tímasett gerð hellisins um árið 800.