„Varnaglarnir sem settir eru í lögum virðast engan veginn virka og hleranir virðast viðgangast í málum sem eru alls ekki nægjanlega alvarleg til að réttlæta alvarlegt inngrip í friðhelgi einkalífsins. Þetta er úrræði sem eingöngu á að nota þegar um mjög alvarlega glæpi er um að ræða,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um hleranir lögreglu en hún var málshefjandi í umræðunni.
Benti hún á að samkvæmt skriflegu svari frá innanríkisráðuneytinu við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, hefðu dómstólar fallist á hleranabeiðnir lögreglunnar í nær 99% tilfella. Líkti hún því við stöðu mála í Moldavíu þar sem dómstólar hefðu fallist á allar beiðnir lögreglu um hleranir. Mannréttindadómstóll Evrópu hefði komist að þeirri niðurstöðu að þar í landi hefði úrræðið verið stórkostlega ofnotað og þarlend löggjöf veitti borgurunum ekki næga vernd. Hvatti hún til þess að endurskoðun laga færi fram hér á landi varðandi gagnageymd og símahleranir með það fyrir augum að koma í veg fyrir misnotkun.
„Við höfum lagt til að skilyrði fyrir heimild til hlerunar verði hert, átta ára fangelsi verði fortakslaust skilyrði og ekki hægt að vísa bara til almannahagsmuna,“ sagði Birgitta ennfremur og vísaði til þingmála sem Píratar hefðu lagt fram. Sömu skilyrði giltu sömuleiðis um aðra gagnageymd og hleranir. Þá yrði sérstakur lögmaður skipaður til þess að gæta hagsmuna þess sem væri hleraður þegar óskað væri eftir heimild frá dómstólum til hlerana á öllum tegundum fjarskipta. Sagði hún ennfremur að skynsamlegra væri að lagfæra löggjöf um þær heimildir sem lögregla hefði þegar áður en henni væru veittar forvirkar rannsóknarheimildir líkt og rætt hafi verið um að kæmi til greina.
Hlynnt endurskoðun heimilda til símahlustunar
Ólöf sagði vilja hafa verið um nokkuð skeið í innanríkisráðuneytinu til þess að endurskoða lagaheimildir til símahlustunar og sagðist hún fyrir sitt leyti geta tekið undir það. Rifjaði hún upp að þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, hafi lagt fram lagafrumvarp þess efnis í tíð síðustu ríkisstjórnar en það hefði hins vegar ekki náð fram að ganga. Þá hefði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi dómsmálaráðherra, lagt fyrir réttarfarsnefnd síðasta haust að taka til endurskoðunar skilyrði fyrir símahlustunum í sakamálalögum.
Réttarfarsnefnd hefði nú unnið drög að frumvarpi að breytingum á lögunum með það að markmiði að skýra ákvæði þeirra um heimildir til símahlustana. Verið væri að fara yfir frumvarpið í innanríkisráðuneytinu. Ekki hefði verið ákveðið hvort það yrði lagt fram á þingi í óbreyttri mynd en það væri til skoðunar. Þá lægi lagafrumvarp fyrir á Alþingi um framtíðarskipan ákæruvaldsins sem meðal annars hefði það að markmiði að styrkja eftirlitshlutverk embættis ríkissaksóknara með framkvæmd ákæruvalds og beitingu rannsóknarheimilda lögreglu.
„Það er mikilvægt í þessari umræðu að við höfum það ávallt að leiðarljósi að um alvarlegt inngrip í froiðhelgi einkalífs er að ræða og því verður ákveðið jafnvægi að vera, annars vegar á milli rannsóknarheimildanna til hagsbóta fyrir rannsókn alvarlegra sakamála og eftirlitsins sem á að vera með þeim og hins vegar hvernig við stöndum að vernd mannréttinda okkar allra,“ sagði Ólöf.