Á borgarráðsfundi í gær var samþykkt að bjóða út malbikunarframkvæmdir fyrir sumarið.
Kostnaðaráætlun er 550 milljónir króna en sjálfstæðismenn lögðu fram bókun um að þeir styðji áform borgarráðs en þau gangi engan veginn nógu langt en gert er ráð fyrir að malbika 16 kílómetra í sumar.
„Uppsöfnuð þörf verður orðin 42 km hjá Reykjavíkurborg í lok ársins 2015 vegna lækkunar fjármagns til viðhaldsframkvæmda á undanförnum árum. Til að bregðast við því lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að framkvæmdum við þrengingu Grensásvegar verði frestað og fjármagnið 160 m.kr. nýtt til gatnaframkvæmda í staðinn,“ segir meðal annars í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.