Þar á jarðhæð er American Bar, sem áður var Thorvaldsen bar. Barinn flaggar bandaríska fánanum bæði Austurstrætismegin og Austurvallarmegin.
Starfsmönnum Alþingis og þingmönnum hugnast það ekki, þegar þeir ganga til vinnu í Austurstræti og funda, að þurfa að ganga inn undir bandaríska fánanum.
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að hann teldi óþolandi, þegar hann gengi inn í skrifstofuhúsnæði Alþingis, að ganga undir bandaríska fánann. „Þetta er óboðlegt og óþolandi,“ sagði Vilhjálmur.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, tekur í sama streng og Vilhjálmur. „Ég er Vilhjálmi alveg sammála. Mér finnst þetta algjörlega óþolandi. Ég veit ekki annað en búið sé að ræða við eigendur hússins. Ég að minnsta kosti bað um að það yrði gert,“ sagði Einar.
Einar sagði að þetta undirstikaði að sínu mati þörfina á því að Alþingi væri í sínum eigin húsakynnum, þar sem þingið gæti ráðið öllu sem því við kemur.
„Þannig værum við ekki sett í þá stöðu að geta ekki haft áhrif á hluti eins og þessa,“ sagði forseti Alþingis.
Þar kemur jafnframt fram að ýmis verslunarfyrirtæki báru erlend nöfn þegar í upphafi síðustu aldar en þá gjarnan erlend mannanöfn eða borgarnöfn að hluta.
„Ekki eru til nein sérlög um nafngiftir fyrirtækja en þau lög sem helst fjalla um þetta efni eru frá árinu 1903 en þau eru bæði ófullkomin og barn síns tíma. Það sem fyrst og fremst hefur stuðlað að erlendum nöfnum íslenskra fyrirtækja er alþjóðavæðing íslensks viðskiptalífs bæði að því leyti að íslensk félög selji vörur á erlendum mörkuðum og einnig hitt að íslensk fyrirtæki tengist erlendum fjölþjóðlegum félögum og nýti sér markaðsstarf þeirra,“ segir ennfremur í svari fyrirtækjaskrár.
Er í þessu sambandi bent á nöfn eins og Icelandair og Icelandic annars vegar og hins vegar Deloitte, PricewaterhouseCooper og Alcoa. Lengi vel hafi verið spyrnt á móti því að íslensk félög bæru erlend heiti en smám saman hafi verið slakað á í ljósi þess sem að framan er sagt. Stundum geti jafnvel verið erfitt að meta hvort heiti sé íslenskt eða erlent og megi þar t.d. nefna heitið WOW.
„Á árinu 1987 voru umræður um þessi mál á Alþingi en þá voru erlend nöfn að ryðja sér til rúms í auknum mæli. Líklegt er að það teldist býsna hjárænulegt ef nú væri bannað að skrá erlend heiti og deilum um þau mál væri vísað til örnefnanefndar eins og gert var ráð fyrir í lögunum frá 1903. Á heimasíðu embættisins eru birt viðmið um skráningu firmaheita og má þar sjá þær reglur sem nú er stuðst við,“ segir að lokum í svari Fyrirtækjaskrár.