„Ég lét mig hafa það að koma á framsóknarskrifstofuna í Moggahöllinni undir blaktandi ESB fána - datt ekki í hug að röfla yfir því,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag.
Vísar hún þar til kvartana Vilhjálms Bjarnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, yfir bandarískum fána sem blakti yfir American Bar í Austurstræti sem rekinn er á neðstu hæð húsnæðis sem Alþingi nýtir fyrir skrifstofur og nefndasvið. „Þetta er óboðlegt og óþolandi,“ sagði Vilhjálmur í Morgunblaðinu í dag og Einar tók undir það. Fáninn var að lokum tekinn niður í dag vegna gagnrýninnar. Vigdís sagði í Ísland í dag á Stöð 2 að hún teldi Einar hafa farið offari í málinu. Einar sagðist í fréttum Stöðvar 2 hafa gengið í málið vegna kvartana nokkurra þingmanna.
Hluti af skrifstofum þingmanna voru í gamla Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti þar til fyrir ekki alls löngu. Fyrst skrifstofur þingmanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og síðan Framsóknarflokksins. Þar opnaði Evrópusambandið sendiráð fyrir nokkrum árum og setti í kjölfarið fána sambandsins utan á húsið. Skrifstofur þingmanna voru fyrir vikið samtímis sendiráðinu í húsinu um tíma.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir af sama tilefni á Facebook-síðu Vigdísar að þingmenn VG hafi ekki séð ástæðu til að gera veður út af Evrópusambandsfánanum frekar en þingmenn Framsóknar. Á eigin síður segist hann ekkert hafa haft á móti því að bandaríski fáninn væri á húsinu. Hann hafi heldur ekki gert athugasemd við Evrópusambandsfánann í Aðalstræti þó skrifstofa hans hefði verið beint fyrir ofan fánann.
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segir á Facebook-síðu sinni í dag um málið: „Erum við ekki orðin fullviðkvæm ef bandaríski fáninn utan á veitingastað er farinn að angra okkur? Það er ekki eins og maður fyllist bandrarískri þjóðerniskennd sönglandi bandaríska þjóðsönginn. Er þetta merki um að menn hvíli ekki nægjanlega vel í Íslendingnum í sér?“