Íbúar í Úlfarsárdal ósáttir vegna seinagangs

Framkvæmdir í Úlfarsárdal hefjast í haust en tilkynnt var um …
Framkvæmdir í Úlfarsárdal hefjast í haust en tilkynnt var um það á íbúafundi í gærkvöldi. mbl.is/Sigurður

Íbúar í Úlfarsárdal eru ósáttir við seinagang í framkvæmdaáætlun borgarinnar í Úlfarsárdal. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, kynnti áætlun borgarinnar á fundi í gærkvöldi og er þar gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í haust og að þeim ljúki eftir sjö ár, árið 2022, þegar menningarmiðstöð og útisundlaug verða tekin í gagnið.

Kristinn Steinn Traustason, formaður íbúasamtaka Úlfarsárdals, segir að íbúar séu almennt sáttir við áætlanir borgarinnar um uppbyggingu á svæðinu. Hins vegar taki framkvæmdirnar allt of langan tíma og segist hann hafa gert ráð fyrir að uppbyggingu myndi ljúka fyrr í hverfinu.

Á fundinum vakti Dagur athygli á því að á næstu árum yrði að jafnaði 2,5 milljörðum króna varðið á ári til framkvæmda í Úlfarsárdal og sagði Dagur jafnframt að almenna reglan væri að ekki sé varið meira en einum milljarði króna á ári í einstök verkefni á vegum borgarinnar.

„Þetta er bara fyrirsláttur. Það er alveg hægt að framkvæma fyrir meira en milljarð á ári,“ segir Kristinn og bætir við að íbúar í Úlfarsárdal greiða sömu útsvarsprósentu og íbúar í öðrum hverfum borgarinnar en fá ekki þjónustu í samræmi við það.

Hann bendir á að byggja eigi fimm stjörnu lúxushótel við Hörpu sem áætlað er að taki 18 til 24 mánuði og eins að Færeyingar séu nú að byggja 20 þúsund fermetra skóla á þremur árum. „Af hverju getur Reykjavík, sem er rúmlega 100 þúsund manna samfélag, ekki byggt skóla á þremur árum sem er meira að segja minni en sá sem Færeyingar eru að byggja,“ spyr Kristinn.

Lóðasala skilaði sjö til átta milljörðum króna

Kristinn segir að sumir íbúar hverfisins séu við það að gefast upp og dæmi eru um að íbúar hafi flutt úr hverfinu. Úlfarsárdalurinn er heldur ekki mjög aðlaðandi miðað við svörin sem hafa fengist frá borgaryfirvöldum.

„Þegar fólk kemur og spyr út í skólann hafa svörin hingað til verið: við vitum það ekki. Núna eru svörin að skólinn komi eftir sjö ár. Þú selur ekki einbýlishúsalóð á 11 til 12 milljónir og gefur fólki þessi svör. Hvers lags söluvara er þetta,“ segir Kristinn.

Hann segir að búið sé að fjármagna uppbyggingu á svæðinu með lóðasölu upp á sjö til átta milljarða króna og með byggingarréttargjaldi.

„Við erum búin að borga fyrir þá þjónustu sem á að byggja þarna upp. Þetta hefði litið öðru vísi út ef fólk hefði fengið lóðirnar gefins.“ 

Framkvæmdirnar í Úlfarsárdal eru stærsta einstaka framkvæmd borgarinnar og mun framkvæmdakostnaður nema um 9,8 milljörðum króna en heildarbyggingamagn er um 15.500 fermetrar. Á fundinum tilkynnti Dagur um að allir fulltrúar í borgarráði hafi samþykkt tvöföldun fjárframlaga til uppbyggingar í fimm ára áætlun, úr fjórum milljörðum í átta.  

Frétt mb.is: Útgjöldin aukin en íbúar ósáttir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert