Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðin skrifuðu í morgun undir samkomulag um nánara samstarf en áður um þróun samgöngukerfa á höfuðborgasvæðinu. Með samkomulaginu eru hraðvagnar og léttlestir komnar á dagskrá, að því er segir í vikulegum pósti Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur.
Segir Dagur í bréfinu að komið sé að því að huga að afkastameiri almenningssamgöngum, enda séu ákveðnar leiðir í strætókerfinu að springa. Segir hann samkomulagið mikilvægt skref, en með því muni Vegagerðin koma nánar að borðinu í stefnumörkun og mörgu fleiru sem til framtíðar horfir í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins.
Grunnur samkomulagsins er nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, en það felur í sér þéttingu byggðar kringum kjarna sem þjónað er af afkastameiri almenningssamgöngum.