„Þetta var mjög fjölmennur fundur. Á honum var farið yfir þá grafalvarlegu stöðu sem nú er komin upp og það samþykkt að vísa málinu til ríkissáttasemjara,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar, og vísar í máli sínu til fundar samninganefndar Flóabandalagsins sem haldinn var í gærkvöldi. Alls eiga þar sæti 120 manns og mættu um 100 þeirra á fundinn sem var rúmlega klukkustundar langur.
Verður kjaraviðræðum Flóans og Samtaka atvinnulífsins vísað til sáttasemjara strax í dag og verður það því á borði hans að boða til næsta fundar. „Það er engin lausn í sjónmáli í þeim deilum sem nú eru uppi,“ segir Sigurður og bætir við að verði sáttaumleitanir í húsakynnum ríkissáttasemjara án árangurs séu „verulegar líkur“ á verkföllum.
Í Flóanum eru Verkalýðsfélagið Hlíf, VSFK og Efling. Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar, segir hækkun áðurnefndra stjórnarlauna hafa hleypt illu blóði í hans fólk. „Maður heyrir það á félagsmönnum að þegar þeir horfa fram á misskiptinguna sem er orðin í landinu þá sé ekkert annað í boði [en verkföll],“ segir hann. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir merki um aukna stéttaskiptingu á Íslandi.