Það eru ekki allir sem setja Íslandsmet í hvert skipti sem þeir mæta í bankann en það gerir Ólafur Helgi Kjartansson. Í dag gaf hann blóð í 180. skiptið í Blóðbankanum og hefur enginn á Íslandi gefið jafn oft blóð og hann. Ólafur, sem er fyrrverandi formaður Blóðgjafafélagsins, segir ástæður þess að hann hafi gefið blóð svo oft bæði einfaldar og flóknar en að þær snúist fyrst og fremst um loforð.
„Þegar foreldrar mínir voru í stórum aðgerðum á sjúkrahúsum lofaði ég mér að ég myndi gera þetta meðan ég hefði heilsu. Í þessi 18 ár sem ég bjó á Ísafirði var þetta ekki alveg eins reglulegt en að öðru leyti hef ég reynt að gefa þegar ég má gefa,“ segir Ólafur. „Ég er [í blóðflokki] O-. Sá flokkur er talinn vera gagnlegur þar sem hann gagnast öllum. Það hefur ákveðin áhrif líka því það er kannski frekar leitað eftir því.“
Ólafur hefur aldrei þurft á blóðgjöf að halda sjálfur en alls gefið blóð 191 sinni. Tvisvar sinnum hefur hann gefið blóð á Ísafirði vegna bráðatilfella en þess utan hefur hann gefið blóð í Bandaríkjunum, Englandi og Ástralíu. Hann segist hafa gefið blóðið „að gamni sínu“ á ýmsum ferðalögum og að til dæmis hafi hann langað til að sjá hvernig blóðgjafabílar litu út að innan þegar hann var í Bandaríkjunum.
„Í Ástralíu var ég á ferðalagi með hópi fólks sem einskonar fararstjóri á vegum Rótarý. Ég hafði m.a. óskað eftir því að fá að skoða blóðbanka en það hafði ekki orðið af því. Þegar komið var í Warnambool þar sem þing umdæmisins sem tók á móti okkur var nefndi ég þetta við umdæmisstjórann og hann bjargaði því,“ segir Ólafur.
„Þetta var blóðsöfnunarstöð þar sem allt var sent til Melbourne til vinnslu. Hjúkrunarfræðingurinn sem sýndi mér þetta sagði: Við tökum ekki blóð úr þér. Ég svaraði því til að ég hefði ekki komið til þess en að ég gæti sagt henni það til skemmtunar að ég væri O-. Þá þagnaði hún, horfði á mig í smá stund og sagði: Við tökum blóð úr þér í dag ef þú ert tilbúinn. Þá gat ég náttúrlega ekki sagt nei,“ segir hann og hlær.
„Þetta varð til þess að ég komst í staðarblöðin. Maður kominn frá Íslandi til að gefa blóð.“
Í hverri blóðgjöf eru teknir 450 ml af blóði. Ólafur hefur raunar einnig gefið blóðflögur og er því erfitt að segja til um nákvæmlega hversu mikið magn blóðs hann hefur gefið. Óhætt er þó að gera ráð fyrir að magnið jafngildi því að hann hafi gefið allt blóðið úr líkama sínum hátt í tíu sinnum eða jafnvel oftar.
Ólafur er augljóslega mikið gæðablóð á fleiri en einn hátt en hann tekur þó öllum fullyrðingum um eigin góðmennsku fálega. „Ég hugsa aldrei út í þetta þannig. Maður leggur sitt af mörkum eftir því sem maður best getur. Þetta hefur reynst mér ágætis loforð því það er mikið lán að vera við þá heilsu að geta gefið blóð,“ segir Ólafur.
Áður en hann kveður blaðamann segist Ólafur vilja hvetja ungt fólk til að leggja málstaðnum lið. „Það er mikilvægt að geta haldið góðum blóðgjafahópi. Þeir sem geta gefið blóð ættu að gera það, við ættum alltaf að reyna að leggja samborgurum okkar lið með einhverjum hætti.“