Jón Atli kjörinn rektor HÍ

„Það eru spennandi tímar framundan,“ segir Jón Atli Benediktsson, sem í kvöld var kjörinn rektor Háskóla Íslands með 54,8% atkvæða.. Hann var merkilega afslappaður miðað við að hafa staðið í kosningabaráttu undanfarnar vikur þegar blaðamaður náði tali af honum. 

Hann sagði lítinn tíma til stefnu til að ná sér niður eftir baráttu undanfarinna vikna, því hann væri á leið til Bandaríkjanna á fund strax á morgun. „Ég tek svo við embætti rektors 1. júlí og þarf þangað til að ræða við fólk og leggja línur,“ segir Jón Atli.

Hann sagði, þegar hann var spurður út í hvernig Háskólinn ætlaði að takast á við fyrirsjáanlega styttingu námstíma til stúdentspróf, að það væri mál sem væri algjörlega eitt þeirra mála sem þyrfti að vinna í.

„Við þurfum fyrst og fremst að ræða við ráðuneytið og framhaldsskólana um það hvernig rétt sé að bregðast við. Það er vinna í gangi og henni verður haldið áfram. Háskólinn mun taka virkan þátt þar,“ segir Jón Atli.

Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir stúdenta fagna aukinni kjörsókn, sem var um 48% meðal nemenda. „Stuðningur stúdenta við Jón Atla er augljós og Stúdentaráð hlakkar til að starfa með honum, eftir farsælt samstarf við hann sem aðstoðarrektor undanfarin ár,“ segir Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs.

Á meðal starfsmanna með háskólapróf sem hafa heilt atkvæði var kjörsókn 87,62% og hlaut Jón Atli 527 atkvæði í þeim flokki og Guðrún 400.

Á meðal starfsmanna með háskólapróf sem hafa hálft atkvæði hlaut Jón Atli 93 atkvæði og Guðrún 76.

Á meðal annarra starfsmanna með heilt atkvæði hlaut Jón Atli 69 atkvæði og Guðrún 76.

Á meðal annarra starfsmanna með hálft atkvæði hlaut Jón Atli 6 atkvæði og Guðrún 17.

Á meðal stúdenta hlaut Jón Atli 3.505 atkvæði og Guðrún 2.460.

Alls voru 326 auð atkvæði. 

Á kjörskrá voru 14.345 manns og var kosningaþátttaka 52,7%. 

Sjá heildarniðurstöðurnar á vef Háskóla Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert