Stundaði sölu fíkniefna í Vestmannaeyjum

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglan í Vestmannaeyjum lagði í gærkvöldi hald á hálft kíló af maríjúana við húsleit í heimahúsi í Vestmannaeyjum. Þetta kemur fram á vef Eyjafrétta í dag. Tveir karlmenn á fimmtugsaldri voru handteknir vegna rannsóknar málsins.

Ábending barst lögreglunni um að húsráðandi væri viðriðinn sölu fíkniefna og var húsleitin framkvæmd í kjölfarið. Við leitina var einnig lagt hald á áhöld til sölu og neyslu efnanna auk nokkurs magns af peningum.

Við húsleitina naut lögreglan aðstoðar fíkniefnahundsins Lunu.

Viðurkenndi húsráðandi brotið og sagðist hann hafa stundað sölu og dreifingu efnanna á undanförnum mánuðum.

Að sögn lögreglu telst því málið að mestu upplýst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert