Þurfti að lifa í nokkra mánuði

Pétur Kristinn Guðmarsson og verjendur í héraðsdómi í dag.
Pétur Kristinn Guðmarsson og verjendur í héraðsdómi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Hefði Kaupþing lifað í nokkra mánuði í viðbót hefði Kaupþing tekið þátt í mesta viðsnúningi á markaði,“ sagði Pétur Kristinn Guðmarsson fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag við aðalmeðferð í stóra markaðsmisnotkunarmálinu sem hófst í morgun. Hann er á meðal þeirra sem embætti sérstaks saksóknara hefur ákært í málinu. Pétur er ákærður fyrir markaðsmisnotkun í aðdraganda þess að Kaupþing banki féll en hann var þá verðbréfasali eigin viðskipta bankans.

Pétur sagði að hann eins og fleiri starfsmenn Kaupþings banka hefðu trúað því að bankinn myndi halda velli enda hefði hann fengið hæstu einkunnir alþjóðlegra matsfyrirtækja eins og Standard & Poor‘s sem og greiningardeilda erlendra stórbanka. Hann hefði sjálfur talið bankann vera einn þann besta í heim ef ekki þann besta. Þegar gengi Kaupþings hefði lækkað hefðu menn ekki haft of miklar áhyggjur af því enda hefðu þeir trúað því að verð á bréfum hans ættu eftir að hækka á nýjan leik. Enda hefði orðið uppsveifla á markaði nokkrum mánuðum eftir að bankinn féll.

Spurði um orðalagið „setja hælana niður“

Björn Þorvaldsson saksóknari spurði Pétur út í ýmis viðskipti sem hann hafði milligöngu um fyrir Kaupþing og ummæli sem hann lét falla um þau í símtölum. Voru spilaðar upptökur af símtölunum. Þar væri til dæmis talað um að „halda við“ og „setja hælana niður“. Saksóknari spurði hvort þar væri átt við að stöðva lækkun bréfa í Kaupþingi en Pétur sagðist einfaldlega telja að orðalagið þýddi að á hvaða tímapunkti væri rétt að hefja kaup á bréfum í bankanum. Pétur sagði ítrekað við skýrslutökuna fyrir dómi að viðskiptin hefðu snúist um að auka seljanleika bréfa í Kaupþingi.

Þannig hefði Kaupþing að hans mati náð sér á strik á nýjan leik ef bankinn hefði haldið velli í nokkra mánuði lengur en hann gerði eins og fyrr segir en Kaupþing féll haustið 2008 skömmu eftir Landsbanka Íslands og Glitni. Hann vísaði ennfremur til neyðarlánsins sem Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi eftir að hinir tveir stóru bankarnir féllu til marks um þá trú sem hefði ríkt á sterkri stöðu bankans. Hann hefði sjálfur haft mikla trú á bankanum og borið traust til yfirmanna sinna.

Ítar­leg frétta­skýr­ing mbl.is um málið: Mál án for­dæma

Björn Þorvaldsson saksóknari og aðstoðarkonur.
Björn Þorvaldsson saksóknari og aðstoðarkonur. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert