Stúdentaráð Háskóla Íslands óskar nýjum rektor, Jóni Atla Benediktssyni, innilega til hamingju með sigurinn í rektorskosningunum sem fóru fram í gær. Stúdentaráðsliða hlakkar til að starfa með honum í framtíðinni og vinna saman að bættum hag stúdenta. Þetta segir í tilkynningu frá Stúdentaráði.
Kjörsókn nemenda var 48,7%, en það er mun hærra en í kosningunum árið 2005. Þá var kosningaþátttaka aðeins 24% - bæði í fyrri og seinni umferð. Með þessu er augljóst að nemendur láta sig málið varða, enda er rektor málsvari háskólans í heild.
Rektor starfar ekki aðeins í þágu starfsfólks háskólans, heldur einnig í þágu nemenda. Jón Atli hefur lagt mikla áherslu á aukið samstarf við nemendur og skiptir rödd stúdenta hann miklu máli.
Stúdentaráð segir það sjást einna helst á stefnumálum hans, en hann mun koma til með að standa með stúdentum í hagsmunavörslu út á við og tryggja gæði náms við háskólann, ásamt nútímavæðingu kennsluhátta. Stúdentaráð telur að að víðtæk reynsla Jóns Atla, bæði innan háskólans og við nýsköpunarstörf, eigi eftir að nýtast háskólasamfélaginu vel.