Í grein sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor og umsjónarmaður með rannsóknarverkefni Félagsvísindastofnunar fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti íslenska bankahrunsins, skrifar í blaðið í dag bendir hann á að vegna mistaka Seðlabankans, undir stjórn Más Guðmundssonar, við sölu á danska FIH bankans hafi ríkið tapað allt að 60 milljörðum íslenskra króna. „Líklega nemur óþarft tap Seðlabankans í þessu dæmi um 60 milljörðum króna. Fer sú upphæð hátt upp í kostnað af smíði fyrirhugaðs hátæknisjúkrahús,“ segir Hannes meðal annars.
Seðlabankinn hafði vegna neyðarlánsins til Kaupþings tekið veð í FIH sem var tvöfalt neyðarlán og munu þeir Christian Dyvig og Fritz Schur, sem keyptu FIH af Seðlabankanum, græða stórfé, m.a. vegna þess að þeir léku á Má, segir Hannes meðal annars í greininni og spyr hvort að þáverandi ríkisstjórn hefði ekki átt að beita sér í málinu. Þá segir Hannes að vegna þvingaðrar flýtisölu erlendra eigna Glitnis, Landsbankans og Kaupþings hafi tapast 210 milljarðar króna sem hann segir að hefðu átt að renna óskiptar til íslenska ríkisins en séu nú tapað fé ýmist vegna handvammar eða fólsku bresku ríkisstjórnarinnar. Heildartapið sé því 270 milljarðar króna sem Hannes segir að hefði mátt koma í veg fyrir.