Hinsegin fræðsla snýst um ást og lífshamingju fólks

María Rut Kristinsdóttir, varaformaður Samtakanna 78
María Rut Kristinsdóttir, varaformaður Samtakanna 78 mbl.is/Styrmir Kári

„Samtökin 78 byrjuðu að tísta undir myllumerkjunum #verndumbörnin og svo hafði allavega einn aðili notað #hinseginleikinn og við ákváðum að nota það líka, enda átti það vel við,“ sagði María Rut Kristinsdóttir, varaformaður Samtakanna 78 í samtali við mbl. 

Ástæðuna fyrir því að þau fóru af stað með tíst undir þessum myllumerkjum sagði María þá að þau vildu vekja athygli á því hversu mikilvægt það sé að vera með virka hinsegin fræðslu í grunnskólum vegna atburða gærdagsins.

Bloggarar fóru á flug

Gylfi Ægisson stofnaði facebook síðu í gær sem hefur það að markmiði að „vernda börn“ gegn hinsegin fræðslu og er hann að mótmæla ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar sem hyggst hefja slíka fræðslu í skólum bæjarins.

„Bloggarar fóru á flug og Útvarp saga var með skoðanakönnun en samkvæmt henni voru rúm 80% andsnúin hinsegin fræðslu í grunnskólum. Við ákváðum að fræða frekar en að fara í manninn. Það er ótrúlega mikilvægt að vera með virka hinsegin fræðslu í skólum einmitt til að vernda börnin.“

María fylgdist með umræðunni í gær af athygli. „Ég þurfti að svara kommentum eins og „getur hinsegin fólk ekki verið út af fyrir sig? Við sem erum venjuleg og lifum venjulegu kynlífi erum ekkert að básúna það út um borg og bí." Svona komment og fleiri eru að misskilja algjörlega út á hvað fræðslan gengur.“

Hvernig geta ást og hamingja verið ljót og óeðlileg?

Hún sagði að fræðslan hafi nákvæmlega ekkert með kynlíf að gera heldur snúist hún um ást og lífshamingju fólks. „Ég skil ekki hvernig ást og hamingja getur verið ljót og óeðlileg, hvernig getur verið ljótt að vera hamingjusamur og elska?“

María hefði óskað þess að hinsegin fræðsla hefði verið í boði þegar hún var í grunnskóla. „Þá hefði ég kannski opnað augun fyrr og ekki verið að rembast við að reyna að vera gagnkynhneigð. Þetta var bara feluleikur og ég vissi alveg að ég væri hinsegin. Maður tók bara þátt í leiknum. Eina fræðslan sem ég, og flestir sem ég þekki, fékk voru fordómar, fúkyrði og eitthvað þannig. Eina sem það hafði í för með sér var að ýta manni ennþá lengra inn í skápinn. Hinsegin fræðsla hefði getað sparað mörg ár af óánægju, sjálfsniðurrifi og í mörgum tilfellum þunglyndi og sjálfsvígshugsunum. Þannig að þetta snýst í kjarnann um lífshamingju fólks.“

Myllumerkið #hinseginleikinn kemur til vegna þess að fólk er að tísta um hluti sem það hefur lent í, sem gagnkynhneigt fólk myndi aldrei lenda í. „Eins og þegar ég og konan mín trúlofuðumst kom frétt um það og fyrsta kommentið var „hvenær kemur X-rated útgáfan?““

María sagði að eina sem Samtökin vildu gera væri að fræða fólk vegna þess að kynhneigð, kynvitund og/eða kyneinkenni er eitthvað sem maður stjórnar ekki. „Það er alveg hægt að bæla hana niður en það er engum til framdráttar og engum líður vel þegar hann bælir niður tilfinningar sínar. Við erum ekkert að meiða fólk með allri ástinni sem við erum að deila.“

Eldri kynslóðir hafa enga fræðslu hlotið. „Ég held að eina leiðin sé að fræða, eina forvörnin gegn fordómum er fræðsla. Við sjáum hversu langt við höfum náð á Íslandi, yfir 3000 manns hafa smellt like á síðuna Verndum börn frá fáfræði.“

Fólk þorir ekki að vera það sem það er

„Þetta snýst um að ég var inni í skápnum allt of lengi og það er fullt af fólki sem þorir ekki að vera það sem það er út af fordómum og fáfræði.“ Þá hefði hinsegin fræðslan komið að gagni og María bætir við: „Í aðalnámskrá grunnskólanna er lögð áhersla á kennslu um jafnrétti. Sumir skólar hafa ekki getað sinnt því og við erum með þjónustusamning við Reykjavíkurborg og komum þá og höldum fræðslu í viðkomandi skóla.“

Einnig er mikilvægt að undirstrika að orðið hinsegin á við um fjölbreytta flóru margra mismunandi hópa og eru Samtökin ‘78 stolt af því að vera regnhlífarsamtök slíkrar flóru. Hinsegin táknar því fjölbreytilegar kynhneigðir á borð við samkynhneigð, tvíkynhneigð, pankynhneigð og asexúal og á við um fjölbreytilega flóru trans fólks og intersex fólks (e. LGBTQPIA+). Þeir fordómar sem hafa komið fram undanfarna daga hafa oftar en ekki nær eingöngu beinst að samkynhneigðum sem að undirstrikar enn meir þá fáfræði og fordóma sem ríkir um hinsegin málefni hérlendis.

„Mér finnst rosalega gaman að sjá þátttöku fólks í þessu twitter-trendi. Þú þarft ekkert að vera hinseginn til að tjá þig, það hafa allir einhverja sögu að segja. Við þurfum að bera virðingu fyrir fjölbreytaleikanum,“ sagði María Rut Kristinsdóttir, varaformaður Samtakanna 78.   

Hér að neðan gefur að líta nokkur tíst til viðbótar undir myllumerkjunum #hinseginleikinn og #verndumbörnin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert