Vilja semja við Framsýn

Fyrirtækin vilja komast hjá verkföllum og þeim kostnaði sem af …
Fyrirtækin vilja komast hjá verkföllum og þeim kostnaði sem af þeim hlýst. Morgunblaðið/Ómar

„Ef atkvæðagreiðslan fer eins og ég tel að hún muni fara og að verkfall verði samþykkt með miklum meirihluta, þá mun ég taka upp viðræður við fyrirtæki hér á svæðinu sem bíða í röðum eftir að fá að ganga frá kjarasamningum við Framsýn,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar. Atkvæðagreiðslu Starfsgreinasambandsins um boðun verkfalls lauk á miðnætti í gærkvöldi.

Að sögn Aðalsteins hafa fyrirtæki á félagssvæði Framsýnar að eigin frumkvæði haft samband við stéttarfélagið á undanförnum dögum og óskað eftir fundi til að skrifa undir kjarasamninga við félagið á grundvelli kröfugerðar Framsýnar. Umrædd fyrirtæki eru í byggingariðnaði, ferðaþjónustu og matvælaiðnaði að sögn Aðalsteins og vilja þau komast hjá verkföllum vegna mikilla umsvifa sem framundan eru, m.a. á Þeistareykjum og í ferðaþjónustunni. Sum þessara fyrirtækja standa utan Samtaka atvinnulífsins en önnur eru innan SA. Í kjölfar undirritunar samninganna mun Framsýn aflýsa verkfalli hjá þessum fyrirtækjum.

„Þessi fyrirtæki hafa öll haft samband við okkur að fyrra bragði og vilja ganga sem fyrst frá kjarasamningum við félagið vegna fólks sem hjá þeim starfar. Þau vilja alls ekki fá yfir sig verkföll vegna þeirra brýnu verkefna sem framundan eru. Ég á von á því að í framhaldi af þessu muni myndast þrýstingur á fleiri fyrirtæki að gera slíkt hið sama,“ segir Aðalsteinn.

Að sögn hans má þó allt eins búast við að SA muni reyna að koma í veg fyrir undirritun kjarasamninga við fyrirtæki sem eru innan vébanda þess en á það verði látið reyna.

Hann segir líka ánægjulegt að forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa haft samband við hann taki undir þá meginkröfu félagsins að lágmarkslaun hækki í 300 þúsund kr. innan þriggja ára.

Aðalsteinn gerir ráð fyrir að gengið verði frá samningum við þessi fyrirtæki til eins árs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert