„Það sem ég ætla að segja í lokin er að ég harma það mjög að ríkisvaldið, sem er eigandi að helmingnum að landinu þar sem Reykjavíkurflugvöllur er, skuli ekki hafa kannað það að setja lögbann á þá framkvæmd sem hafin er þar meðan Rögnunefndin er að störfum.“
Þetta sagði Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag og vísaði þar til framkvæmda sem hafnar eru við Reykjavíkurflugvöll um nýtingu Hliðarendasvæðisins samkvæmt samkomulagi reykjavíkurborgar við Knattspyrnufélagið Val og Val ehf. og störf sérstakrar nefndar undir formennsku Rögnu Árnadóttur um framtíðarfyrirkomulag flugvallarmála í Reykjavík.
Kristján sagði málið ekki flokkspólitískt enda væru skiptar skoðanir innan allra flokka um það og allir flokkar hefðu einhvern veginn komið að því. Honum þætti hins vegar miður að framkvæmdirnar væru hafnar enda teldi hann það „aðför að hálfgerðu friðarsamkomulagi sem gert var um að allir mundu halda í við sig meðan svokölluð Rögnunefnd væri að vinna.“